Teriyaki kjúklingur

Þessi kjúklingur er undir japönskum áhrifum þótt ekki sé hann hreinræktaður japanskur, líklega nær því að vera amerísk-japanskur. Slær yfirleitt í gegn hjá öllum kynslóðum.  Hefðbundin teriyaki-marínering byggist að mestu á sake, sykri og sojasósu en hér svindlum við aðeins.

Þetta er tilvalin marinering fyrir grillaðan kjúkling en yaki-ið í teriyaki vísar einmit til grillaðra rétta.

Hægt er að nota annað hvort heilan kjúkling sem hefur verið bútaður niður í 8-10 bita, allt eftir því hvað bringubeinið er stórt eða þá úrbeinaðar bringur og jafnvel enn frekar úrbeinuð læri sem eru bragðmeiri en bringurnar.

Þessi marinering á einnig mjög vel við nautakjöt

Í löginn þarf eftirfarandi:

2 dl Teriyaki-sósu

1 dl sojasósu

½ dl ólívuolíu

4-5 hvítlauksgeira

4-5 sm af engifer

límónu (lime)

Rífið niður engiferrótina og hvítlaukinn á fína hlutanum á rifjárninu. Bætið við teriyaki-sósunni, sojasósunni og olíunni. Pískið vel saman með gaffli. Pressið safann úr límónunni út í löginn og pískið aftur.

Leggið kjúklinginn í teriyaki-löginn og látið hann liggja þar í lágmark 2-3 klukkustundir í ísskáp og jafnvel yfir nótt.

Grillið kjúklinginn á álpappír eða í álbakka og passið vel upp á að snúa honum reglulega svo að hann brenni ekki við. Veltið bitunum að minnsta kosti einu sinni aftur upp úr afganginum af kryddleginum á meðan grillað er og hellið honum síðan yfir bitana í lokin og látið sjóða með síðustu mínúturnar.

Berið fram með jasmin-hrísgrjónum og salati með grænu blaðsalati og agúrkum.

Hvítvín á vel við þennan rétt, helst frísklegt og ungt Chardonnay t.d. hið suður-ítalska Pasqua Chardonnay.

Deila.