Grillaðar mozzarella- og salvíufylltar kjúklingabringur

Þetta er léttur og mildur grillréttur þar sem salvía gefur tóninn í bragðinu.  Best er að nota ferska salvíu en einnig má nota þurrkaða. Þá er notað helmingi minna magn en ef um ferska væri að ræða. Það hefur um árabil verið hægt að fá ítalskan mozzarella í búðum og nú er einnig kominn íslenskur mozzarella á markaðinn sem er alveg ágætur. Nota bene: við erum að tala um alvöru hvít og blaut mozzarellastykki hér en en ekki “mozzarella”-ost sem seldur er í samskonar stykkjum og venjulegur ostur.

Fyrir fjóra þarf eftirfarandi:

  • 4 stk kjúklingabringur
  • 1 stk mozzarella
  • Salvía, fersk, ein pakkning
  • Spaghetti 500 g
  • Smjör 150 g
  • 4 hvítlauksrif
  • Cayennepipar
  • Salt og pipar

Byrjið á því að “butterfly”-skera kjúklingabringurnar og fletja út. Skerið fyrst langsum í miðjunni niður um hálfa bringuna og til hliðar báðum megin þannig að hægt er fletta út bringunni líkt og bók. Fletjið hana frekar út með því að setja bringuna undir plastfilmu og þrýsta lófanum á hana og berja aðeins til.

Saxið salvíublöðin smátt og skerið ostinn niður í átta sneiðar.

Saltið og piprið bringurnar og kryddið með helmingnum af salvíunni. Leggið tvær ostsneiðar á hverja bringu og lokið þeim. Penslið bringurnar með ólívuolíu báðum megin og grillið.

Rífið hvítlaukinn og blandið honum saman við volgt smjörið með gaffli. Bætið helmingnum af söxuðu salvíunni saman við ásamt tæpri teskeið af Cayennepipar.  Blandið vel saman og kælið.

Sjóðið spaghettíið samkvæmt leiðbeiningum. Þegar það er tilbúið setjið þið það í skál og bætið við rúmlega helmingnum af hvítlauks-salvíu-smjörinu. Hrærið smjörinu vel saman við pastað.

Setjið afganginn af smjörinu á bringurnar þegar þær eru fulleldaðar á grillinu. Leyfið smjörinu að byrja að bráðna á bringunum. Takið þær þá af grillinu og berið strax fram ásamt spaghettíinu með kryddsmjörinu og grænu salati með tómötum.

Gott suður-franskt vín smellur með þessu. Ég mæli sterklega með E. Guigal Cotes du Rhone 2005.

 

 

Deila.