Íslandssumarið mikla

Þær hörmungar sem hafa dunið á okkur Íslendingum síðasta tæpa árið eru með ólíkindum og varla hægt að segja að á þeim séu neinar jákvæðar hliðar. Ein af aukaverkunum hrunsins er hins vegar sú að velflestir Íslendingar eru farnir að sjá landið sitt í nýju ljósi og ekki bara í hinu neikvæða ljósi efnahagsmálanna.

Það heyrir til tíðinda þessa dagana ef maður hittir einhvern sem er nýkominn úr fríi frá útlöndum. Flestum dettur vart í hug að leggja land undir fót með evruna í 180 krónum og dollarann í 125 krónum. Þeir sem hafa engu að síður gerst svo djarfir bera með sér heim hryllingssögur af þúsund króna kaffibollum, tvö þúsund króna bjórglösum og skyndibitamáltíðum sem kostuðu fjölskyldur jafnmikið og heimsókn á dýrustu veitingahús Íslands.

Sumarið 2009 er sumarið sem við ferðuðumst um Ísland og eflaust eru margir sem velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum menn eru alltaf að flækjast til útlanda.

Ekki spillir fyrir að á síðustu árum hefur orðið sannkölluð vakning í ekki bara matvælaframleiðslu heldur einnig gisti- og veitingaþjónustu um land allt. Vegasjoppurnar og ruslfæðið eru sígilt umkvörtunarefni – það er hins vegar hægt að ferðast hringinn í kringum landið í dag og finna sjarmerandi litla veitingastaði og jafnvel hreinustu perlur inni á milli, hvort sem er á Ísafirði, Sauðárkróki, Öxnadal, Mývatnssveit, Seyðisfirði…

Ég var á viðtali á Rás 1 á föstudagsmorgun að ræða um Vínótekið, mat og matarmenningu og talið barst að því hvort að við ættum ekki langt í land með að verða eins og Frakkland og Ítalía þar sem hver sveit hefur sínar stórkostlegu hefðir. Jú vissulega, enda hefur sú menning þróast fram á mörgum öldum. Við eigum hins vegar ótrúleg tækifæri, ef við bara komum auga á þau.

Líkt og meistarakokkurinn Gunnar Karl á Dill bendir á þá átta margir sig ekki alltaf á því hvað þeir eru með gott hráefni í höndunum, jafnvel eitthvað sem hægt sé að selja inn á bestu veitingastaðina. Þess í stað eru berin, sulturnar, sölin eða fjallagrösin gefin vinum og vandamönnum.  Að hluta til liggur vandinn í allt of strangri matvælalöggjöf sem kemur í veg fyrir að hægt sé að þróa vinnslu á t.d. kjöt- og mjólkurafurðum og selja beint frá býli. Hvers vegna er til dæmis ekki framleitt meira af góðum pylsum hér á landi?

Landið okkar er stórkostleg matarkista þótt landfræðileg lega Íslands geri afurðirnar frábrugðnar þeim sem vaxa t.d. við Miðjarðarhafið. Vandinn liggur miklu frekar í því að við höfum ekki verið að nýta afurðir okkar sem skyldi þótt á því hafi orðið mikil breyting síðustu árin.

Eflaust hafa margir uppgötvað eitthvað nýtt sumarið 2009 og fengið nýja sýn á Ísland. Maður hefur oft reynt að láta krakkana reyna nýja hluti á ferðalögum. Einhver stórkostlegasta upplifun þessa sumars var í ferð til Vestmannaeyja með nokkrum vinafjölskyldum er hópnum áskotnaðist vænt stykki úr hnísu er hafði lent í net.

Hún var bæði grilluð og snædd hrá og það var einstakt að sjá hóp reykvískra barna henda sér yfir hvalkjötið og háma það í sig með sojasósu, engifer og jafnvel wasabi líkt og um hreinasta sælgæti væri að ræða. Sem þetta vissulega var, kjötið meyrara og mildara en besta nautakjöt.

Og nú er berja- og sveppatíminn að byrja!

 

 

Deila.