Kahlúa-kakan 2009

Það var óneitanlega ekki auðvelt verkefnið sem dómnefndin stóð frammi fyrir í Kahlúa-kökukeppninni sem fram fór á Hótel Borg síðastliðinn laugardag. Hennar beið að bragða á og meta þær fjörutíu kökur sem höfðu borist í keppnina frá bakarameisturum landsins. Kökurnar voru jafnfjölbreyttar og þær voru margar.

Vínótekið átti sæti í dómnefndinni og verður að segjast eins og er að margar af kökunum voru glettilega góðar þótt ekki hafi það verið auðvelt að vinna sig í gegnum allan þennan fjölda. Ekki síst var frábært að sjá hversu margar kökur bárust frá nemum í fagskólanum og hversu nálægt sumar þeirra voru að lenda í verðlaunasæti. Það boðar vonandi gott varðandi bakarameistara framtíðarinnar!

Það er alltaf erfitt að gera upp á milli en þegar upp var staðið stóð ein kaka upp úr. Hún ber heitið Royal Kahlúa og kom frá Sigurði Má Guðjónssyni í Bernhöftsbakarí. Afskaplega falleg kaka, vel uppbyggð og hrikalega góð. Í öðru sæti kom hin glæsilega kaka Hvíti víkingurinn frá Ásgeiri Sandholt í Sandholts bakarí og í því þriðja kaka frá Stefáni Hrafni Sigfússyni í Mosfellsbakaríi.

Uppskriftin að sigurkökunni verður birt hér á næstu dögum.

Deila.