Villa Arvedi Amarone 2003

Amarone er magnaður vínstíll og þegar vel lætur eru Amarone-vínin í hópi höfugustu fulltrúa ítalskrar víngerðar. Mikil um sig og djúp með endalausri lengd. Þau eiga sér hins vegar ekki langa sögu líkt og lesa má um með því að smella hér. Sérstaða Amarone felst í því að þrúgurnar eru þurrkaðar eftir tínslu og er því sem kemur úr þeim við pressun mun samþjappaðri en ella.

Villa Arvedi 2003 er tignarlegur Amaraone frá vínhúsinu Bertani. Vínið þurrt, kryddað, í nefi vanillusykur, súkkulaði, lakkrís, krít og dökk kirsuber. Það tekur rosalegan kipp í munni, eins og öflug vél sem springur af stað. Glæsilegt vin í alla staði, ekki síst þar sem jafnvægi helst á öllu og það nær að halda í fínleikann þrátt fyrir kraftinn. Vínið er að upplagi tannískt og kröftugt, opnast vel eftir því sem það er opið lengur og kanill og piparkökur renna saman við dökkan súkkulaðiberjahjúpinn.

Með kröftugum pottréttum á borð við Osso Bucco, vel hanginni nautasteik eða íslenskri villibráð.

5.690 krónur.

 

Deila.