Flammekueche

Matargerð Alsace í Frakklandi hefur mikla sérstöðu og nýtur mikilla vinsælda. Það á meðal annars við um þennan rétt sem heitir Flammekuche eða Tarte Flambée, eftir því hvort að maður styðst við Alsace-mállýskuna eða frönskuna. Á íslensku myndi nafnið útleggjast sem logandi baka. Flammekuche finnur maður á flestum brasserie-veitingahúsum Alsace en upphaflega kemur hann frá Kochersberg-héraði. Bakan var elduð í stórum viðarbökunarofnum og yfirleitt það fyrsta sem sett var inn til að athuga hvort að hann væri orðinn nógu heitur fyrir brauðbaksturinn..

Við notum venjulegt pizzudeig.

Hitið 3 dl af vatni í örbylgjunni þannig að það verði vel volgt. Bætið út í einu bréfi af þurrgeri, teskeið af sykri, klípu af salti og skvettu af olíu hrærið vel saman.

Setjið 6-7 dl af hveiti í skál. Ég nota yfirleitt til helminga venjulegt hveiti og fínmalað spelt. Hvað venjulega hveitið varðar þá er Europris-hveitið sterkjumikið og hentar betur en flest önnur í svona bakstur.

Blandið gerblöndunni saman við hveitið og látið deigið lyfta sér í rúman hálftíma á volgum stað.

Setjið smá hveiti saman við deigið og hnoðið það vel. Það á verða teygjanlegt og auðvelt meðferðar, þannig að maður geti nánast togað það og teygt að vild.

Mótið deigið á plötuna sem þið ætlið að nota. Flammekueche eru yfirleitt ferkantaðar bökur. Þegar deigið er tilbúið kemur að næsta kafla.

  • 1 dós sýrður rjómi (36%)
  • 2 lauxar, grófsaxaðir
  • 400 grömm beikon
  • salt
  • múskathneta
  • 1-2 msk smjör

Hitið smjörið á pönnu og mýkið laukin í nokkrar mínútur. Takið af pönnunni og blandið saman við sýrða rjómann. Kryddið með klípu af salti og smá rifinni múskathnetu. Skerið beikonið í grófa bita og steikið létt á pönnu.

Fletjið degið út á ofnplötu. Smyrjið laukblöndunni á deigið. Dreifið beikoninu yfir.

Bakið á hæsta hita í ofninum þar til brauðið er orðið stökkt, 10-15 mínútur.

Í Alsace drekka menn ávallt hvítvín með Flammekueche og þá oftast annað hvort Pinot Blanc eða Riesling. Vín á borð við Hugel Riesling smellpassar og einnig má nefna Arthur Metz Riesling.

Deila.