Perrin Reserve 2007

Það var sú tíð að menn firrtust við þegar að þeir sáu vínflöskur með skrúfuðum tappa. Nú er raunin frekar sú að menn fagni því, sérstaklega þegar um er að ræða vín sem neyta á yngri en fimm ára eða svo. Sérstaklega ánægjulegt að sjá er að það eru ekki einungis „framúrstefnuþjóðir“ á borð við Ný-Sjálendinga sem hafa tileinkað sér skrúftappan í ríkum mæli heldur einnig alla jafna íhaldssamir gæðaframleiðendur í Frakklandi.

Perrin-fjölskyldan á eitt besta víngerðarhús Rhone-svæðisins, Chateau Beaucastel í Chateauneuf-du-Pape. Hún framleiðir hins vegar einnig einfaldari vín frá Cotes-du-Rhone undir fjölskyldunafninu Perrin og frá suðurhluta Rhone-svæðisins undir nafninu La Vieille Ferme.

Perrin Reserve 2007 er vín sem fellur undir skilgreininguna Cotes-du-Rhone. Það sem fyrsta sem tekur á móti manni í glasinu er karamella eða brenndur sykur en síðan gýs dökkur og kryddaður ávöxtur upp. Ungur, skarpur með nokkrum lakkrískeim. Þétt og tannískt í munni með þroskuðum svörtum berjum og lakkrís.

Með bragðmiklum pottréttum eða griluðu kjöti með hvítlauk og rósmarín, með ostum.

1.999 krónur. Góð kaup.

 

 

Deila.