Sierra Salinas Mo 2007

Vín frá Alicante hafa ekki verið fyrirferðarmikil í vínbúðunum til þessa, flestir tengja líklega nafn héraðsins frekar við strendur en vín. Alicante er heldur ekki stórt þegar víngerðin er annars vegar. Vín er ræktað á þrettán þúsund hektörum af um 50 framleiðendum.

Það er raunar ekki fyrr en á allra síðustu árum sem gæðavínrækt hefur fest sig í sessi í Alicante en nú eru hlutirnir þar á fleygiferð. Bodegas Sierra Salinas er ágætis dæmi en þetta vínhús hóf rekstur árið 2000. Sierra Salinas er í eigu Castaño-fjölskyldunnar sem á eitt þekktasta vínfyrirtækið í héraðinu Yecla (vín frá Bodegas Castaño hafa verið fáanleg hér) og hefur unnið gífurlegt starf þar við að efla ímynd þrúgunnar Monastrell.

Castaño-fjölskyldan tók höndum saman við svissneska fjárfesta og keypti ekrur með gömlum Monastrell-vínvið í dalnum Sierra Salinas og reisti þar hátækni-víngerð og hefur hafið framleiðslu á vínum þar sem Monastrell er í fyrirrúmi.

Vínið Mo 07 er raunar ekki alveg hreint Monastrell, í því er smá Syrah og Cabernet. Það er dökkt á lit og að upplagi, heitt, kryddað og tannískt. Skarpur rifsberjaávöxtur í nefi, viður og pipar. Leyfið víninu að opna sig í smástund, jafnvel gott að umhella því.

Með kröftugum kjötréttum, t.d. svínakótilettum með beikon- og rjómasósu eða spænskum kjötbollum.

1.895 krónur

 

 

Deila.