Beronia Tempranillo 2007

Vínhúsið Beronia er ekki vínhús með langa sögu er spannar margar aldir. Þvert á móti var það stofnað árið 1973 af vinahópi frá Madrid sem fékk þá bólu í höfuðið að gera sitt eigið vín. Árangurinn var hins vegar framar öllum vonum og áratug síðar var Beronia komið í samstarf við sérrí-risann Gonzalez-Byass.

Flest vín Beronia eru í hefðbundnum Rioja-stíl en tvö skera sig þó úr, einnar-þrúgu vín úr annars vegar Tempranillo og hins vegar Mazuelo.

Bodegas Beronia Tempranillo 2007 er greinilegur Rioja, en stíllinn nútímalegur. Ávöxturinn, dökk og þroskuð kirsuber, er áberandi og ýtinn og eikin leikur undir í stað þess að troða sér of mikið fram líkt og oft vill einkenna stíl hefðbundinna Rioja-vína. Hér er notuð amerísk eik, úr vel sviðnum tunnum, sem gefur töluvert af kryddkeim í vínið. Blómailmur smeygir sér líka í gegn, rósir og fjólur. Ungt með ferskri sýru og mjög mildum tannínum og góðri lengd í munni þar sem ávöxturinn hefur yfirhöndina gagnvart eikinni.

Mjög góð kaup. Með góðri nautasteik eins og öll betri Rioja-vín. Reynið hins vegar einnig með mat á borð við andarbringunum okkar með kirsuberjasósu.

1.998 krónur.

 

 

Deila.