Vín vikunnar

Átta vín voru tekin umfjöllunar í þessari viku og þau koma víða að líkt og venjulega. Skiptingin á milli rauðvína og hvítvína var jöfn en Spánverjar voru nokkuð áberandi með þrjú vín að þessu sinni.

Öll spænsku vínin voru rauð og öll eru þau framleidd úr þrúgunni Tempranillo. Stíll þeirra er hins vegar mjög ólíkur.  Rioja-vínið Faustino VII  2007 er ungt en svolítið sveitalegt og í gamla, klassíska stílnum, sem íslenskir neytendur hafa kunnað mjög vel við í gegnum árin. Beronia Tempranillo 2007 er hins vegar nútímaleg útfærsla af Rioja þar sem áherslan er ekki síst á kröftugan og mikinn ávöxt. Fortius Tempranillo 2006 er frá nágrannahéraðinu Navarra og er nær módern Rioja-vínum í stílnum.

Flest þau argentínsku vín sem við eigum kost á koma frá vínhéraðinu Mendoza. Það er því gaman að geta kynnt vín frá öðru svæði, nefnilega San Juan. Þar starfar spennandi og framsækið fyrirtæki sem á heiðurinn af víninu Las Moras Malbec Black Label 2006.

Handan Andes-fjallanna kom hvítvínið Canepa Pinot Grigio 2007.

Vínframleiðandinn Saint-Clair í Nýja-Sjálandi er okkur orðinn af góðu kunnur og hvítvínið Saint-Clair Riesling 2008 er ungt og sprækt.

Alsace í Frakklandi er eitthvert besta hvítvínshérað veraldar og vínin þaðan eru lygilega góð matarvín. Tvö þeirra komu til umfjöllunar í vikunni, annars vegar Pfaffenheim Gewurztraminer 2007 og hins vegar Trimbach Pinot Gris 2005.

Smellið á nafn vínanna til að lesa nánar um þau.

Myndskreyting vikunnar er af vínekrum í Alsace í haustþokunni.

Deila.