Tómatasúpa með brauði að hætti Toskanabúa

Þetta er matarmikil, bragðmikil og aðeins öðruvísi tómatsúpa eða papa al pomodoro en alveg dásamleg á bragðið. Uppskriftina fengum við hjá Leifi á La Primavera.

1 stk  laukur, fínt saxaður

3 stk  hvítlauksgeirar, saxaðir

750 gr  tómatar eða ein 500 g krukka af heilum „Ítalíu“ tómötum

1 lítri kjúklingasoð

Maldon salt

Pipar

250 gr  brauð, skorpulaust, helst dagsgamalt

1 búnt basilika

Ólífuolía

Afhýðið tómatana.  Fjarlægið kjarna og skerið í bita. Athugið að í staðinn fyrir nýja tómata má nota 500 g tómata í dós.

Þurrkið brauðið í ofni í nokkrar mín.

Hitið olíu í potti og mýkið lauk í um 5 mín. án þess að brúna.  Bætið tómötum og hvítlauk saman við og eldið í 5 mín. til viðbótar.  Hellið soðinu út í pottinn og sjóðið í 30 mín.  Kryddið með salti og pipar.  Rífið brauðið út í súpuna ásamt basilíku og látið standa í 10 mín.  Ausið súpunni á diska og setjið vel af ólífuolíu yfir hvern disk.

Athugið, það er mikilvægt að nota einungis ólívuolíu í háum gæðaflokki, ekki bara extra virgin frá ódýrum framleiðanda heldur ólívuolíu sem stendur fyrir sínu ein og sér. Þumalputtareglan: Ef þú getur ekki hugsað þér að dýfa brauðbita ofan í hana og borða skaltu ekki nota hana.

Með þessu er hægt að hafa hvort sem er hvítvín eða rauðvín, helst ítalskt auðvitað. Verði hvítvín fyir valinu myndi ég mæla með létteikuðu Chardonnay á borð við Catena Chardonnay eða þá ítalskan Chianti á borð við Confini Chianti Classico sem smellur frábærlega að þessum rétti.

 

Deila.