Vín vikunnar

Við tókum sjö vín til umfjöllunar á Vínótekinu í liðinni viku og eins og ávallt komu þau víða að og voru mjög ólík að stíl og upplagi.

Tvö hvítvín frá Suður-Ítalíu vöktu athygli enda er hvert ítalska hvítvínið á fætur öðru að sýna og sanna hversu stórkostlegar hvítvínþrúgur Púglíu, Kampaníu og Sikileyjar eru. Þær standa svo sannarlega í hárinu á “alþjóðlegu” þrúgunum.

Annað vínanna, Kalis Chardonnay-Grillo 2008 , lífrænt ræktaður Sikileyingur, er raunar blanda sikileysku Grillo-þrúgunnar við hina frönsku Chardonnay en A Mano Fiano-Greco 2008 er hreinræktaður Suður-Ítali.

Domaine Laroche Chablis Saint-Martin 2007 sýndi svo hvers megnug Chardonnay-þrúgan er á heimaslóðum sínum í Búrgund í Frakklandi.

Þrjú spænsk rauðvín voru til umfjöllunar, mjög ólík í stílnum og öll dæmigerð fyrir þá þróun sem á sér stað í spænskri víngerð í dag. Beronia Crianza 2007 er ungt, módernt og fínt Rioja-vín úr Tempranillo. Raimat Abadia 2006 er rauðvín frá Costers del Segre í Katalóníu þar sem franska þrúgan Cabernet Sauvignon er í aðalhlutverki.

Puerto Salinas 2006 hins vegar magnað vín frá nýju ræktunarsvæðunum í Alicante þar sem Monastrell er uppistaðan.

Að lokum smökkuðum við eitt traust og matvænt “kassavín” frá Argentínu, Trivento Malbec.

Smellið á nafn vínanna til að lesa nánar um þau.

Myndskreyting vikunnar er frá Mendoza í Argentínu þar sem við sjáum Malbec þrúgur dafna á bak við sérsakt net sem veitir þeim smá skugga frá funheitri sólinni.

 

Deila.