Feudi di San Marzano Negroamaro 2007

Vínhúsið Feudi di San Marzano varð til í núverandi mynd þegar Valentino Sciotti rakst á vínsamlagið Cantina Sociale di San Marzano í Púglíu og sá þá möguleika sem voru til staðar.  Sciotti þykir með framsæknustu vínmönnum Ítalíu, hann er upprunalega frá Abruzzi en hefur undanfarið starfað mikið á Suður-Ítalíu, í Kampaníu og Puglía.

Sciotti festi kaup á vínsamlaginu og fékk til liðs við sig þekkta víngerðarmenn og áður en nokkur vissi af voru vínin frá gamla, þreytta vínsamlaginu á allra vörum. Víngerðarhúsið er eitt hið fullkomnasta í Púgíu og vínviðurinn einhver sá elsti, meðalaldurinn yfir 80 ár.

Feudi di San Marzano Negroamaro 2007 hefur djúpa, kryddaða angan af plómusultu, villtum jarðarberjum og vanillu. Þykkur og massaður ávöxtur í munni, örlítið tannískur og með þægilegri ávaxtasætu. Dúndurvín.

Með flestum kjötréttum, grilluðu kjöti jafnt sem bragðmiklum pottréttum.

1.730 krónur. Mjög góð kaup og fær fjórðu stjörnuna fyrir hlutfall verðs/gæða.

 

Deila.