Dill í úrslit The Nordic Prize

Veitingahúsið Dill í Norræna húsinu hefur verið valið í úrslit keppninnar The Nordic Prize en í janúar verður tilkynnt hvaða staður verður útnefndur sem besta veitingahús Norðurlanda árið 2009. Önnur veitingahús sem komust í úrslit eru Noma í Kaupmannahöfn, Savoy í Helsinki, Matthias Dahlgren í Stokkhólmi og Bagatelle í Ósló, en öll eru þau í hópi allra bestu veitingahúsa Norður-Evrópu.

Þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin The Nordic Prize eru afhent en helsti hvatamaður þeirra hefur verið Bent Christensen, sem um árabil hefur verið í forystu fyrir Slow Food í Danmörku og gefið út Den Danske Spiseguide í á fjórða áratug. Árlega hefur Den Danske Spiseguide kjörið besta veitingahús Danmerkur og nú hefur Christensen í samvinnu við aðra komið á laggirnar norrænum verðlaunum.

Nokkur hús í hverju landi voru fyrst tilnefnd og nú hefur dómnefndin valið út eitt hús frá hverju Norðurlandanna en hver verður hlutskarpastur verður tilkynnt á galakvöldi á Sölleröd Kro í Holte í Danmörku í lok janúar.

„Við erum mjög stoltir af þessu og þetta er mikil viðurkenning,“ segir Ólafur Örn Ólafsson á Dill. „Ekki bara fyrir okkur heldur fyrir nýnorræna eldhúsið. Við erum þarna í félagskap með NOMA, Mathias Dahlgren og Bagatelle sem eru allir frmkvöðlar í Nýnorræna eldhúsinu í sínu landi og að vera nefndir í sömu andrá er mikill heiður. Eins líka það að við erum bara búnir að vera með opið í 9 mánuði og að vera valdir út úr öllum þessum frábæru stöðum hér á landi til að keppa fyrir íslands hönd um það hver er bestur á norðulöndunum er ótrúlega frábært!“

Umfjöllun Vínóteksins um Dill má lesa hér

Deila.