Senorio de Los Llanos Gran Reserva 2002

Á hásléttunni suður af Madrid höfuðborg Spánar er að finna héraðið La Mancha og vínsvæðið Valdepenas sem er eitt helsta framleiðslusvæði spænskra rauðvína.

Los Llanos er framleiðandi sem hefur notið gífurlegra vinsælda á Norðurlöndunum og eru meðal annars mest seldu vínin á flösku í Svíþjóð. V hússins eru flest framleidd úr Tempranillo-þrúgunni en hún ber heitið Cencibel á þessum slóðum, látin liggja lengi á eik og eru því ekki svo ósvipuð Rioja í stílnum, aðeins sólabakaðri þó og töluvert ódýrari.

Senorio de los Llanos Gran Reserva 2002 angar af rauðum sultuðum berjum og mildri eik og leðri. Mjúkt, þroskað og nokkuð kryddað í munni með vott af tannínum.

Með grilluðu lambi eða nauti.

1.798 krónur. Góð kaup.

 

Deila.