Jólasíld með eggjum og kartöflum

Þessi síldarréttur mun vera franskur að uppruna en hefur aðlagast íslenskum aðstæðum og smekk. Hann er frábær á jólaborðið með öðrum köldum – eða heitum – réttum. Síldin frá Agli á Siglufirði er mild og hentar virkilega vel í rétt sem þennan, ekki of sölt eða feit.

Hráefni:

  • Reykt síldarflök frá Agli á Siglufirði – eitt á mann.
  • Nýjar kartöflur – 150-200 g á mann
  • Egg – eitt á mann
  • Ein meðalstór gulrót
  • Tveir litlir skalottlaukar eða einn stór
  • Ein matskeið sterkt, franskt sinnep
  • Ein matskeið sérrí- eða rauðvínsedik
  • Fjórar matskeiðar ólífuolía
  • Ein teskeið nýmulinn, svartur pipar
  • Ein til tvær teskeiðar Herbamare-salt

Kartöflurnar soðnar (ekki um of) og flysjaðar, skornar ca. í þrjá hluta.

Eggin harðsoðin og skorin í fjórðunga

Gulrótin skorin í þunnar sneiðar

Skalottlaukurinn skorinn í þunna hringi

Síldarflökin roðflett og skorin í ca. 1,5 cm bita

Gulrót, laukur og síld sett saman í salatskál.

Sinnepinu, ólífuolíunni, edikinu, saltinu og piparnum blandað vel saman, t.d. í hristiglasi. Vinaigrettunni hellt yfir salatið í skálinni.

Kartöflunum blandað varlega saman við, eggin að síðustu lögð ofan á.

Salatið er gott hvort sem er volgt eða kalt. Gott er að bera fram með því jöklabrauð eða rúgbrauð.

Með síldinni passar góður snafs, t.d. jólaálaborgari og bjór vel. Það má hins vegar einnig bjóða fram hvítvín og þá gott Pinot Gris frá Alsace, t.d. frá Hugel, Trimbach eða Weinbach.

Fjölmargar fleiri síldaruppskriftir má finna hér. 

Deila.