Vín ársins 2009

Er ekki við hæfi svona í upphafi nýs árs að líta yfir farinn veg? Vínótekið fór af stað  um mitt árið 2009 og hefur vaxið og dafnað síðan.

Nær daglega hefur bæst við nýtt efni.Það hafa á annað hundrað vín verið til umfjöllunar, mataruppskriftirnar eru að nálgast hundraðið og að auki má nú á Vínótekinu finna um 60 kokkteiluppskriftir. Það stendur til að halda áfram af fullum krafti árið 2010 og gefa í ef eitthvað er.

En hvað er það sem stendur upp úr á árinu 2009? Auðvitað setur hrun krónunnar og hækkun áfengisgjalda mark sitt á árið. Vín sem áður voru flestum aðgengileg eru orðin dýr og við neytendur sem gátum gengið að mjög góðum vínum vísum í kringum fimmtánhundruðkallinn þurfum nú að sætta okkur við að þessi sömu vín hafa hækkað um þúsund krónur eða meira í sumum tilvikum.

Það er þó enn hægt að gera góð kaup og eitt af því sem stendur upp úr á árinu er hversu sterkt Suður-Ítalía hefur verið að koma inn og þá ekki síst Púglía.  Aftur og aftur komu til smökkunar afbragðs vín sem að auki voru á mjög fínu verði. Þar má nefna vín á borð við Lamadoro Primitivo, sem er með bestu kaupunum í vínbúðunum í dag, og Feudi di San Marzano Negroamaro. Þá var Terra di Vulcano Aglianico del Vulture með þeim forvitnilegri sem smökkuð voru á árinu. En það voru líka frábær hvítvín sem komu frá þessum sömu slóðum og má þar nefna A Mano Fiano Greco, Bisceglia Terra di Vulcano Falanghina og Kalis Chardonnay Grillo.

Argentína hefur sömuleiðis verið að styrkja sig verulega og mikið af flottum vínum sem þaðan koma. Þrúgan Malbec er hörkufín og það sýna vín á borð við Catena Malbec og Punto Final Malbec.  Það er líka hægt að fá ódýr og fín frá Argentínu eins og kassavínið Trivento Malbec og hvítvínið Criollo Torrontes-Chardonnay sýna.

Þá verður að nefna Spán sem hefur löngum verið einhver traustasta uppspretta góðra vína. Nú eru það hins vegar ekki bara Tempranillo-vínin frá Rioja sem gleðja okkur heldur nýjar hliðar á Spáni. Eitthvert athyglisverðasta vínið sem bættist við í vínbúðirnar á árinu var þannig Mo 2007, vín úr þrúgunni Monastrell frá Alicante. Það er einnig ánægjulegt að vínin frá Páres Baltá svo sem Blanc de Pacs séu nú komin í sölu hér á landi.  Kynnin við framleiðandann Torres voru einnig endurnýjuð og enn og aftur sannfærðist maður um hversu hörkugóður framleiðandi er  þar á ferð eins og vín á borð við Gran Coronas og Fransola, svo tvö séu nefnd, sýna.

Þá er ánægjulegt að sjá nýja fulltrúa austurrískrar víngerðar í hillum vínbúðanna. Vínin frá Fischer eru vönduð og góð líkt og Fischer St. Laurent sýnir einnig eru t.d. fín Pinot Noir fáanleg frá sama vínhúsi.

Það er erfitt að gera upp á milli góðra vína en ég vil hins vegar nefna þrjú sem standa upp úr á árinu.

Þar verður fyrst að nefna Montes Purple Angel sem er líklega eitt besta vín Suður-Ameríku og sannar hversu mikil tækifæri felast í þrúgunni Carmenere.

Í öðru lagi vínið Cum Laude frá Banfi. Þetta er alveg hreint ótrúlega gott vín fyrir peninginn frá Brunello-svæðinu í Toskana, ekki það dýrasta frá Banfi en öðrum ólöstuðum eitt hið besta.

Í þriðja lagi annað Toskana-vín, hið magnaða Cepparello. Það voru tveir árgangar teknir til umfjöllunar og það verður að segjast eins og er að 2004-árgangurinn er einhver sá besti sem Paolo di Marchi hefur sent frá sér.

Deila.