Pasta með brokkólí

Á Suður-Ítalíu, hvort sem er í Púglíu eða Sikiley, er mjög algengt að fá á borðið – inn á milli annarra rétta – disk með brokkólí-pasta. Í Púgliu er algengt að nota Orecchiette-pasta (litlu eyrun) en það má nota margar aðrar tegundir af þurrkuðu pasta, t.d. Penne.

  • 500 g brokkólí
  • 500 g pasta t.d. Orecchiette, Penne eða Tagliatelle
  • 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • þurrkaður Chili pipar (Hot Red Pepper Flakes)
  • rifinn Parmesan ostur eða Parmesan og Pecorino til helminga
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Brjótið brokkólíbúntin niður í minni búnt og skerið þykkustu stilkana frá blómunum. Hitið vatn í stórum potti, saltið og setjið brokkólíið út þegar suðan er komin upp. Sjóðið í  um fimm mínútur. Brókkóliið á að vera mjúkt og nær fulleldað.

Takið brokkólíið upp úr vatninu og haldið því til haga. Sjóðið pastað í sama vatni og brokkólíið var soðið í.

Á meðan pastað sýður eru hvítlaukurinn og chili-flögurnar hitaðar í um 1/2 dl. af olívuolíu á stórri pönnu, passið upp á að laukurinn brúnist ekki. Bætið nú brókkólíinu út á pönnuna, veltið upp úr olíunni, saltið og eldið undir lokið á vægum hita í um fimmtán mínútur.

Bætið loks pastanu saman við, blandið smá ólívuolíu út á og berið fram með nýrifnum Parmesan, Pecorino eða Parmesan/Pecorino blöndu.

Ungt og þægilegt ítalskt suður-ítalskt rauðvín eða hvítvín með, t.d. Púglía-vínin Lamadoro Primitivo eða A Mano Primitivo.

Deila.