Hamborgari með paprikuaioli

Það er hægt að leika sér endalaust með hamborgara. Hér gerum við hann að flottri máltíð svona í tilefni þess að sett hefur verið inn könnun um hvers sé besti hamborgari landsins sem hægt er að finna með því að smella hérna. Þessi uppskrift hentar vel með stórum og safaríkum borgurum og auðvitað eru þeir allra bestu heimatilbúnir að hætti Bandaríkjamanna.

En við byrjum á því að búa til aioli kryddað með paprikukryddi. Það er virkilega gott að nota kryddaða papriku en það krydd er töluvert notað í spænskri og mið-amerískri matargerð og er kallað pimentón ahumado. Ef þið eigið ekki þetta krydd er vel hægt að nota paprikuduft og cayennepipar þess í stað.

Paprikuaioli

  • 2 eggjarauður
  • 1 msk Dijon-sinnep
  • 3 pressaðir hvítlauksgeirar
  • salt
  • 2 dl olía
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 1 msk paprikuduft + tsk Cayenne pipar – eða 1 msk reykt paprika

Aðferð
Pressið hvítlaukinn og setjið í skál ásamt klípu af salti. Bætið eggjarauðunum, sinnepinu, paprikuduftinu og sítrónusafanum út í og blandið vel saman með gaffli. Hellið olíunni smám saman út í og pískið hressilega með gafflinum á meðan þar til úr verður þykkt majonnes.

Grillið eða steikið borgarana og hitið brauðið. Bætið gjarnan osti á borgarann. Setjið salatblöð, tómat og paprikuaioli á milli brauðanna ásamt borgaranum. Berið fram með góðu salati, grískt salat er til dæmis gott með.

Hvernig væri að prufa gott rauðvín með þessu. Amerískur Cabernet smellpassar, t.d. hinn suður-ameríski Montes Cabernet Sauvignon.

Deila.