Abadal Cabernet Franc Tempranillo 2008

Það er  margt forvitnilegt við þetta vín frá vínhúsinu Abadal. Það er blanda úr Cabernet Franc og þekktustu þrúgu Spánar, Tempranillo.

Þrúgan Cabernet Franc er ekki sú algengasta þótt margir hafi eflaust óafvitandi rekist á hana í Bordeaux-vínum, þar sem hún er algeng sem ein af þrúgunum í blöndunni.  Einnig er hún töluvert notuð í Loire-dalnum í Frakklandi, s.s. í Chinon.

Héraðið Pla de Bages í Katalóníu er sömuleiðis fremur sjaldséð, enda með þeim minni á Spáni. Nafnið Bages er dregið af heiti rómverska vínguðarins Bakkusar.

Það er Cabernet Franc sem hefur yfirhöndina og gefur víninu kröftugt yfirbragð, dökk ber, vindlakassi, kryddjurtir og græn paprika í nefi. Nokkuð tannískt en rennur vel saman og mýkist ef því gefið því smá tíma, tanínnin mjúk og dökkt súkkulaði kemur fram í munni.

Prufið til dæmis með lambakótilettum með ólívum.

2.190 krónur. Góð kaup

 

Deila.