Freyðivínin frá Bourgogne eru kölluð Crémant de Bourgogne og líklega kemst ekkert annað svæði nær því að gera freyðivín sem líkjast kampavínum. Þetta er nágrannasveit Champagne og þrúgurnar því ekki bara þær sömu og ræktaðar eru í Champagne (það er Pinot Noir og Chardonnay) heldur aðstæður allar einnig mjög svipaðar. Þegar sama aðferð er notuð við gerð freyðivínsins og í Champagne verður útkoman oft mjög góð.
Það verður líka að segjast eins og er að þetta freyðivín La Cave de Bailly Lapierre gæti hæglega villt á sér heimildir og þóst vera kampavín. Kannski ekki besta og dýrasta kampavínið en „kampavín“ engu að síður. Helsti munurinn er verðið, sem er um helmingur af verði hefðbundins kampavíns.
Angan af ristuðu brauði og ljósum ávöxtum, gulum eplum nokkuð þroskuðum. Freyðir vel, kröftuglega og jafnt, ágengt, þurrt og ávaxtaríkt í munni. Virkilega gott jafnvægi á milli sýru og ávaxtar.
Flottur fordrykur fyrir þau okkar sem sakna kampavínsins og jafnvel sem matarvín.
2.299 krónur. Frábær kaup.