Stjörnukokkur snýr aftur

Einn helsti stjörnukokkur Bretlands á síðustu öld, Pierre Koffmann, hefur ákveðið að hefja störf á ný og opnar nýr veitingastaður hans á fimm stjörnu lúxushótelinu The Berkeley í Knigtshbridge í London í næsta mánuði. Nýji staðurinn mun heita Koffmann’s og vera í húsnæði þar sem áður var rekinn staðurinn Boxwood Café.

Koffmann er franskur að uppruna en hefur starað í Bretlandi mesta alla ævi sína. Hann rak hið rómaða veitingahús La Tante Claire um 25 ára skeið og gat lungann úr þeim tíma gengið að þremur Michelin-stjörnum vísum. Koffmann lét af störfum árið 2003.

Hann var áratugum saman talinn vera besti matreiðslumaður Bretlands og var lærimeistari margra verðandi stjörnukokka svo sem Marco Pierre White, Gordon Ramsey og Marcus Wareing. Sá síðastnefndi er raunar einnig starfandi á Berkeley hótelinu á tveggja stjörnu staðnum Marcus Waering at the Berkeley.

Koffmann hefur lýst því yfir að nýji staðurinn muni bjóða upp á einfalda og góða matargerð í anda franska sveitaeldhússins. Lögð verði áhersla á þægilegt andrúmsloft og ekki síst megi búast við áhrifum frá heimaslóðum hans í Gascogne-héraði.

Deila.