Frönsk hallarveisla á Hótel Holti

Það verður sannkölluð frönsk hallarveisla í Viðey fimmtudaginn 3. júní. Sú skemmtilega hefð hefur myndast á undanförnum árum að í byrjun júní komi hingað til lands forsvarsmaður einhvers af bestu vínhúsum Bordeaux, haldi fyrirlestur og smökkun auk þess sem gestum gefist kostur á að snæða dýrindis máltíð með vínum viðkomandi vínhúss.

Þessir Bordeaux-dagar hafa hingað til ávallt verið haldnir á Hótel Holti sem hefur skipulagt þá í samstarfi við fyrirtækið Globus, sem hefur nýtt sér tengsl sín við helstu vínhúsin í Bordeaux. Meðal þeirra sem hingað hafa komið á síðustu árum eru Pierre Lurton, sem stjórnar tveimur af þekktustu vínhúsum heims, Yquem og Cheval Blanc, Patrick Maroteaux eigandi Chateau Branaire Ducru, sem lengi var formaður samtaka Grand Cru-húsanna, Cathiard-hjónin, sem eiga og reka Smith-Haut-Lafitte, Valette-hjónin frá Troplong Mondot og David Launay frá Gruaud Larose.

Listinn er lengri og lengist sem betur fer með hverju ári enda hafa þessar ferðir orðið til að kveikja Íslandsáhuga margra og hafa færri komist til Íslands en vilja enn sem komið er.

Vínhúsið sem að þessu sinni er tekið fyrir ætti að koma mörgum Íslendingum kunnuglega fyrir sjónir enda hafa vínin frá Chateau Cantenac Brown verið fáanleg í vínbúðum og fríhöfninni um margra ára skeið. Það er José Sanfins, forstjóri Cantenac Brown, sem kemur til landsins og heldur utan um smökkun á vínum þess.

Raunar verður umgjörðin með nokkru öðru sniði en venjulega. Hótel Holt hefur tekið yfir veitingareksturinn í Viðey og verður smökkun og veisla haldin þar. Það má segja að það sé vel við hæfi enda Viðeyjarstofa líklega það sem kemst næst því að vera alvöru íslenskt „chateau“.

Friðgeir Ingi Eiríksson yfirmatreiðslumeistari starfaði um árabil í Frakklandi og hélt þá oft utan um stórar veislur fyrir þekkta vínframleiðendur. Hann segist byggja kvöldverðinn á fimmtudag á því sem þar tíðkaðist og verði smökkun og mat blandað saman með skemmtilegum hætti. Á matseðli kvöldsins  á Holtinu á föstudag og laugardag eru rauðsprettudrumbur með kantarellum, beikoni og melónu, dúfubringa og jarðsveppasósam, marineraðar lambakótilettur með „ratatouille“, nauta ribeye og sveppa „duxelle“og loks fylltur Brio-ostur með pækluðum hnetum. Boðið verður upp á sjö árganga af Cantenac Brown með, meðal annars hina frábæru 2005 og 2006 auk nokkurra annarra vína frá sama vínhúsi.

Chateau Cantenac Brown er einhver glæsilegastasta höll Bordeaux-héraðsins og þaðan koma sömuleiðis einhver bestu vín undirsvæðisins Margaux.

Vínekrur Cantenac Brown þekja á fimmta tug hektara og er flokkað sem 3éme Cru Classé samkvæmt hinni frægu 1855 flokkun. Uppistaðan er Cabernet Sauvignon en einnig Merlot og Cabernet Franc.

Nafn Cantenac Brown er dregið annars vegar af þorpinu Cantenac, þar sem vínbúgarðurinn er staðsettur, og hins vegar Skotanum John Lewis Brown sem eignaðist Cantenac árið 1806.

Það hét raunar Brown-Cantenac um tíma en nafninu var breytt þar sem það olli ruglingi við nafn annars þekkts vínhúss í Margaux, Chateau Brane-Cantenac.

Það var John Lewis Brown sem lét reisa hina tilkomumiklu höll eða „chateau“ sem setur sterkan svip á umhverfi sitt og má sjá á flöskumiða vínsins. Höllin var reist í enskum renaissance-stíl eða Tudor að ósk Browns.

Chateau Cantenac Brown hefur skipt nokkrum sinnum um eigendur síðan og var þar til nýlega í eigu franska stórfyrirtækisins AXA-Millesimé sem lagði mikið fé í að endurnýja ekrur og víngerð. AXA seldi hins vegar breska kaupsýslumanninum Simon Halabi eignina fyrir nokkrum árum

Þrjú vín eru framleidd í Cantenac Brown. Aðalvínið er auðvitað Chateau Cantenac Brown (um 15 þúsund kassar árlega) en því til viðbótar er framleitt „second“ vínið Brio de Cantenac Brown, þar sem notaðar eru þrúgur af yngri vínvið. Loks ber að nefna vínið Chateau Brown Lamartine sem er Bordeaux Superieur og koma þrúgurnar af afmarkaðri átta hektara vínekru.

.

Deila.