Vel heppnað bombusmakk

Það var þéttskipað í Gyllta Salnum á Hótel Borg um helgina þegar þar var haldið svokallað „bombusmakk“ á vegum Vífilfells. Þar voru samankomnir vel á annan tug erlendra gesta sem kynntu vín fyrirtækja sinna. Það hafa sjaldan ef nokkurn tímann verið samankomnir jafnmargir fulltrúar erlendra vínfyrirtækja í einu á einni smökkun á Íslandi, nema ef helst vera kynni á stóru vínsýningunum sem fóru fram í Perlunni fyrir um áratug.

Það var forvitnilegt að sjá þá miklu breidd sem Vífilfell býr nú yfir í úrvali sínu og gestum gafst að smakka mög mörg góð vín. Má þar nefna Meursault og Gevrey-Chambertin frá Búrgundar-framleiðandanum Bouchard Pére, sem nú kemur inn á íslenska markaðinn á ný. Topp-hvítvínin frá Réne Muré í Alsace í Frakklandi voru kynnt af Véronique Muré, yndisleg Soave og mögnuð Amarone frá Fasoli Gino voru smökkuð undir hans eigin leiðsögn, argentínsku jaðarvínin frá Colomé í Salta-héraði og Chile-vínin frá Morande. Þarna var líka kominn sjálfur Franck Millet með Sancerre og Pouilly-Fumé vínin sín og Færeyingurinn Erling Eidesgaard með Eldvatnið.

Frábært framtak og vonandi verður framhald á.

Deila.