ESB hafnar lífrænu víni

Töluverð ólga er meðal vínbænda sem framleiða vín sín með lífrænum hætti eftir að ESB hafnaði því í vikunni að samþykkja staðla um lífræna víngerð og koma á laggirnar sérstökum flokki lífrænna vína.

Hingað til hafa framleiðendur ekki fengið að merkja framleiðslu sína sem lífræn vín og mega einungis taka fram á flöskumiðum að vínið sé framleitt úr „lífrænt ræktuðum þrúgum“. Rökin eru þau að einungis þrúgur geti verið lífrænt ræktaðar og ekki sú til neinar  skilgreindar víngerðaraðferðir sem hægt sé að flokka sem „lífrænar“.

Um árabil hefur verið unnið að því að móta slíka staðla og í tillögum sem fram voru komnar var m.a. gert ráð fyrir því að tilteknum aðferðum við víngerð væri óheimilt að beita ef vín ætti að flokkast sem „lífrænt“. Má þar nefna viðbót tiltekinna bætiefna og notkun svokallaðrar „spunakeilu“ sem er skilvinda sem notuð er til að fjarlægja áfengi úr víni. Þá hefur sömuleiðis verið mikið deilt um hvernig eigi að fara með notkun súlfíðs sem alla jafna er bætt út í vín til að koma í veg fyrir oxun þess.

Dacian Ciolos, sem fer með landbúnaðarmál í framkvæmdastjórn ESB, sagði þessar tillögur ekki lengur á borðinu en að hann vonaði að framkvæmdastjórnin myndi taka málið upp á nýjan leik síðar meir.

Samtök bænda hafa lýst yfir mikilli óánægju með þessa niðurstöðu enda hamli hún framþróun í evrópskri víngerð í þessum mikilvæga og vaxandi vöruflokki.

Deila.