Mateus

Það verður rósavínsþema næstu daga enda er þetta besti árstíminn fyrir rósavín, þau eru öðru fremur sumarvín til að njóta á sólríkum dögum. Og hvar á maður að byrja annars staðar en á frægasta rósavíni allra tíma.

Mateus frá Portúgal var vinsælasta vín í heimi á sínum tíma og náðu vinsældir þess hámarki á áttunda áratugnum. Enn á það líka marga áhangendur þótt aðrir líti niður á það. Vilji menn vera svolítið „retro“ er þetta vínið og það hefur breyst í tímanna rás í takt við breyttan smekk, það er ekki eins sætt og það var og freyðir örlítið meira. Það er enn í „skrýtnu“ flöskunni en er komið með skrúfutappa.

Í nefi skörp angan af rauðum berjum og kirsuberjum, það freyðir létt og þægilega og sýran er mild. Einfalt, aðgengilegt rósavín, með mildri og ekki yfirþyrmandi sætu, sem þarf að vera nokkuð vel kælt.

1.499 krónur.

 

Deila.