Umskipti á nítjándu

Nítjánda hæðin í Turninum í Kópavogi hefur haldið inn á nýjar brautir og hafa forsvarsmenn þess, sem eru reynsluboltar úr íslensku veitingalífi, ákveðið að beina sjónum sínum að þeim stóra hópi fólks sem gjarnan vill fara út að borða með allri fjölskyldunni en geta þá átt annan kost en annaðhvort skyndibita- og pizzustaði annars vegar og fína og formfasta veitingastaði annars staðar.

Þetta konsept er bæði gamalt og nýtt. Segja má að þarna sé verið að feta sömu braut og Askur gerði á sínum tíma og Laugaás en með öðrum áherslum í umhverfi og matargerð.

Hugmyndirnar að hlaðborðinu á Nítjándu eru að sögn Óskars Finnssonar, eins forsvarsmanna Nítjándu, sóttar víða en ekki síst til Singapore þar sem er rík hefð fyrir lúxushlaðborðum á fínum hótelum. Réttirnir á hlaðborðinu, sem telja á sjötta tuginn, eru líka margir hverjir undir greinilegum áhrifum Suður- og Suðausturhluta Asíu. Þarna voru verulega góðir indverskir réttir en einnig taílenskir, auk þess hægt var að fá klassíska nautalund og beairnaise.

Fyrir yngstu gestina er síðan sérstakt matarborð með „Disney“-réttum og sömuleiðis herbergi þar sem teiknimyndafígúrur eru í algleymingi og ungir gestir, sem hafa ekki sama úthald við borðhaldið og þeir eldri í fjölskyldunni, geta sendið undir eftirliti barnapíu, horft á myndir, teiknað eða púslað.

Deila.