Andarbringur með kirsuberjasósu

Það er því miður ekki hægt að ganga að kirsuberjum vísum á Íslandi allt árið. Það er þó helst á þessum árstíma sem miklar líkur eru á að rekast á kirsuber í búðum. Það er hægt að nota bæði fersk og frosin ber í þessa uppskrift og sömuleiðis er tilvalið að frysta fersk ber þegar þau eru fáanleg.

  • 3-4 andarbringur eftir stærð. (um 250 gr á mann)
  • 250 g kirsuber (hreinsið steinana úr)
  • 1 grænt Granny Smith-epli. Flysjað og kjarnhreinsað, skorið í bita.
  • 1 dl rauðvín
  • 2 tsk sykur
  • 1/2 kanilstöng, mulin
  • 3 negulnaglar
  • pipar
  • hnífsoddur af múskat
  • smjör

Hitið um 2 msk af smjöri í potti ásamt sykrinum. Brúnið eplabitana. Bætið rauðvíninu saman við og sjóðið niður í 2-3 mínútur. Bætið öllu öðru saman við (nema andarbringunum), leyfið suðunni að koma upp, lækkið þá hitann og látið malla í um tíu mínútur.

Síið sósuna og geymið.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Best er að afþíða bringurnar í ísskáp yfir nótt. Takið þær úr ísskápnum 2-3 klukkustundum áður en þið eldið þær, þannig að þær nái stofuhita.

Skerið siðan í bringurnar skinnmegin bæði langsum og þversum í gegnum húðina og fitulagið alveg niður að vöðvanum. Saltið vel með Maldon-salti og nuddið því ofan í rásirnar sem þið eruð búin að skera.

Hitið pönnu án olíu eða smjörs.

Leggið bringurnar á pönnuna með skinnhliðina niður og steikið þar til puran er orðin stökk og fín. Snúið þá bringunum við og steikið í 2-3 mínútur á hinni hliðinni. Takið bringurnar af pönnunni, setjið í ofnfast form og setjið inn í ofninn í 8-10 mínútur. Takið þær þá út og leyfið þeim að jafna sig.

Hitið sósuna upp og bætið nokkrum steinlausum, heilum kirsuberjum saman við.

Skerið bringurnar í sneiðar. Saltið varlega með Maldon-salti. Raðið sneiðunum á diska og hellið sósunni yfir.

Gott Bordeaux passar vel með, t.d. Brio frá Cantenac.

Deila.