Kjúklingur með kókos og kóríander

Það er suður-indverskur fílingur í þessum rétti og skiptir miklu að nota ferska kókoshnetu þó að það sé óneitanlega svolítið maus að vinna hana.

 • 600 g beinlaus og skinnlaus kjúklingur, bringur eða læri, skorinn í bita
 • 1 kanilstöng
 • 5-6 sm engiferbútur, flysjaður og skorinn í bita
 • 6 kardamommur
 • 6 negulnaglar
 • 2 tsk Garam Masala
 • 2 tsk þurrkuð karrílauf (fást í Heilsuhúsinu)
 • 1 kókoshneta
 • 1 bufflaukur, saxaður
 • 2 geirlausir hvítlaukar, grófsaxaðir
 • 3 grænir chilibelgir, skornir langsum og fræhreinsaðir
 • 1/2 sítróna, safinn pressaður
 • 1/2 búnt kóríander

Það skiptir miklu að nota ferska kókoshnetu en ekki þurrkaðar kókosflögur. Stingið gat á hnetuna með hnífi í gegnum „augun“ sem eru á öðrum endanum. Hellið safanum úr hnetunni. Hann á að vera sætur og góður, þá er hnetan í lagi. Þegar búið er að hella safanum úr hnetunni þarf að brjóta hana. Best er að ganga hreint til verks og nota hamar. Skafið hvíta kjötið rinnan úr hnetunni. Yfirleitt þarf að snyrta það til þannig að einungis hvítt kjötið standi eftir. Gott er að gera það með kartöfluskrælara. Rífið síðan niður á grófu rifjárni.

Hitið olíu á pönnu eða í þykkum potti. Setjið kanilstöngina, kardamommurnar og negulnaglana út í olíuna og steikið í rúma hálfa mínútu. Bætið þá lauknum saman við og brúnið. Bætið hvítlauk, engifer chili og karrílaufum út á pönnuna, blandið öllu vel saman og steikið áfram í þrjár mínútur.

Setjið kjúklinginn á pönnuna og steikið þar til hann hefur tekið á sig góðan lit. Setjði 1 tsk af Garam Masala á pönnuna, saltið og bætið um 2 dl af vatni á pönnuna. Leyfið suðu að koma upp, lækkið hitann og látið malla undir loki í um korter.

Takið þá lokið af pönnunni, hækkið hitann og sjóðið vatnið niður að mestu. Bætið 3/4 af rifnu kókoshnetunni, sítrónusafanum og 1 tsk af Garam Masala saman við. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar.

Setjið loks saxaðan kóríander út á pönnuna og blandið vel saman.

Berið strax fram með Basmati-grjónum og Naan-brauði. Sáldrið afganginum af rifnu kókoshnetunni yfir.

Ferkst og gott Chardonnay-vín með, t.d. Drostdy Hof Chardonnay.

 

Deila.