Kjúklingur með heslihnetusósu

Ristaðar heslihnetur gefa af sér mikið og gott bragð sem er undirstaðan í þessari uppskrift.

  • 500 g kjúklingalundir eða bringur, flattar út og skornar í ræmur
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 2 dl heslihnetur, grófhakkaðar og ristaðar
  • 1 skalottulaukur, fínsaxaður
  • 1/2 dl brandý eða dökkt romm
  • 1 lúka steinselja, fínsöxuð
  • 2 msk hveiti
  • smjör
  • salt og pipar

Byrjið á því að grófsaxa heslihneturnar. Dreifið þeim á bökunarpappír á bökunarplötu og setjið inn í 180 gráðu heitan ofn í allt að tíu mínútur. Passið að brenna ekki. Takið út og saxið fínt.

Veltið kjúklingabitunum upp úr hveiti, saltið og piprið.

Hitið smjör á pönnu og brúnið kjúklingabitana. Takið af pönnunni og geymið.

Bætið smá smjöri á pönnuna og mýkið skalottulaukinn á miðlungshita í 2-3 mínútur. Hellið brandý út á pönnuna og sjóðið niður í um 1 mínútu.  Bætið rjómanum út á og leysið upp skófarnar af pönnunni. Bætið hnetunum saman við og síðan kjúklingnum. Látið malla þar til að sósan hefur þykknað.

Sáldrið steinseljunni yfir og berið strax fram með pasta t.d. Fusilli eða Tagliatelle.

Berið fram með góðu ítölsku rauðvíni, t.d. A Mano Primitivo.

 

Deila.