Kastarólur eru vinsælar í Bandaríkjunum sem meðlæti með þakkargjörðarkalkúninum. Kastarólur eru einfaldlega eitthvað sem eldað er í eldföstu móti. Orðið kemur af hinu franska heiti casserole og kom sem sletta inn í íslenskuna á nítjándu öld í gegnum dönskuna. Marta María Stephensen notaði orðið kastaróla yfir þetta fyrirbæri í sinni ágætu matreiðslubók er kom út árið 1800 og er það notað hér.
Þetta er sígild amerísk kastaróla en þó ekki eins sæt og þær eru oft og sömuleiðis er því sleppt að krydda hana t.d. með kanil eins og víða er vinsælt.
- 2 sætar kartöflur
- 2 egg
- 50 g smjör
- 1 dós sýrður rjómi 18%
- 1 msk sykur
- 1 tsk vanilludropar
- valhnetur/pekanhnetur
Flysjið sætu kartöflurnar, sjóðið og maukið. Blandið smjörinu saman við. Pískið eggin og blandið saman við ásamt sýrðum rjóma, sykri og vanilludropum.
Setjið í eldfast mót. Sáldrið valhnetum yfir eða blöndu af valhnetum og pekanhnetum og bakið í um 30 mínútur við 200 gráður.