Hvunndagskjúklingur með dukkah

Hér er einfaldur en einkar bragðgóður kjúklingaréttur með chillíkrydduðum grilluðum sætum kartöflum. Í vetrarríki eins og við búum við á nýbyrjuðu ári er næst besti kosturinn valinn við að grilla, þ.e. í ofninum, en með hækkandi sól og skaplegra veðri er sjálfsagt að nota útigrillið.

Sætar kartöflur

• 1 sæmilega stór sæt kartafla

• 1 msk ólífuolía

• 2 hvítlaukgeirar, fínsaxaðir

• 1 msk ferskt rósmarín

• 1 tsk túmerik

• 2 tsk chilliflögur

Kjúklingalundir

• 600 gr. kjúklingalundir

• Smjörklípa

• 4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir

• bútur af engiferrót

• 1 msk dukkah með valhnetum og chilli (frá Yndisauka)

• 2 dl matreiðslurjómi

• 2 msk Butter Masala, mild og kremuð indversk sósa með tómötum, kókos og smjöri.

• 2 tsk Maldon salt

Gott er að byrja á því að skera sætu kartöflurnar í báta því þær taka 15-20 mínútur að grillast í ofninum á mesta hita. Blandið saman olíu, hvítlauk, rósmarín, túmerik og chillíflögum. Penslið kartöflurnar og setjið í ofnskúffu á bökunarpappír. Snúið þeim við nokkrum sinnum svo þær bakist jafnt á öllum hliðum.

Þegar kartöflurnar eru komnar í ofninn er hvítlaukur og ferk engiferrót smátt skorin og svissuð í mínútu eða tvær á snarpheitri pönnu – bætið við smjörklípu. Síðan er dukkah með valhnetum og chilli sáldrað yfir og maukað saman í stutta stund. Maukið er að því búnu tekið af pönnunni og lagt til hliðar. (Munið eftir að snúa kartöflunum í ofninum!) Þá eru kjúklingalundirnar steikar á pönnunni, fyrst við háan hita, en síðan er hitinn lækkaður og hvítlauks-og engifermaukið með dúkkúhnni blandað saman við. Loks er matreiðslurjómanum og kremuðu masala sósunni blandað saman – og hellt yfir kjúklinginn. Látið krauma við lágan hita í tíu mínútur. Sáldrið Maldon-saltflögum yfir réttinn augnabliki áður en hann er framreiddur.

Borið fram með fersku grænmeti.

 

Deila.