Finca Constancia 2009

Þetta spænska rauðvín kemur frá Toledo á spænsku hásléttunni, svæðinu Vino de la Tierra de Castilla, og er blanda úr einum fimm þrúgum, Cabernet Sauvignon, Syrah, Cabernet Franc, Petit Verdot og Graciano.

Þetta er svæði sem hefur löngum verið þungamiðjan í vínframleiðslu Spánverja en sækir nú æ meira fram á markaði gæðavína. Þar koma m.a. til fjárfestingar stórra vínfyrirtækja sem sjá þar möguleikana. Sú er til dæmis raunin í þessu tilviki en Constancia er í eigu sérrísans Gonzalez-Byass.

Vínið er mjög dökkt á lit, ávöxturinn heitur og dökkur, rúsínur og sólber, töluvert kryddað og heitt, í munni þykkt, þykkur, sætur berjasafi með mjúkum tannínum. Reynið með grilluðu lambi með kryddjurtum.

2.298 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.