E. Guigal Cotes-du-Rhone 2009

Það er alltaf smá eftirsjá af því þegar að góðir árgangar hverfa af markaðnum og það á t.d. við um 2007 árganginn af hinu frábæra E. Guigal Cotes-du-Rhone. Þótt Cotes-du-Rhone séu oft einföld vín þá á það ekki við um þau frá Guigal, sem er virtasti framleiðandi norðurhluta Rhone og eitt stærsta nafnið í franskri víngerð. Cotes-du-Rhone-vínin eru þau ódýrustu sem að hann lætur frá sér en það er ekkert „ódýrt“ við þessi vín. Þetta eru alvöru rauðvín sem endast vel í fimm ár hið minnsta. Það sýndi 2007 vínið vel sem var farið að blómstra þegar að það hvarf af markaði.

En við þurfum í sjálfu sér ekki að örvænta. 2008 árgangurinn kom aldrei hingað (engin ástæða til að sýta það) heldur er það hið frábæra 2009 sem leysir hið stórkostlega 2007 af hólmi. Líkt og það er hér um að ræða vín þar sem Syrah er uppistaðan, ólíkt flestum öðrum Cotes-du-Rhone-vínum þar sem Grenache er uppistaðan.

Dökkt og massívt á litinn, angan af bökuðum plómum, rabarbara og rifsberjasultu, nokkuð kryddað, berjalyng og tóbak. Kröftugt og massað í munni, ávöxturinn heitur og sætur og mikill, áfram kryddað, silkimjúk tannín.

Þetta er matarvín, hentar með öllu kjöti grilluðu eða steiktu með ferskum kryddjurtum. Lamb og rósmarín einhver?

2.599 krónur. Frábær kaup. 2007 hvað….

 

 

 

 

Deila.