Arabískur grillkjúklingur með jógúrtsósu

Samsetningin á kryddunum í þessari uppskrift er sótt til arabíska eldhússins en cummin og kardimomma gefa framandi og spennandi keim af kjúklingnum. Gert er ráð fyrir heilum kjúklingi.

Kryddlögur

 • safi úr 1/2 sítrónu
 • 1/2 dl ólívuolía
 • 3-4 pressaðir hvítlauksgeirar
 • 1 msk kardimomma
 • 1 msk cummin
 • 1 msk reykt paprika
 • 1 msk mulin kóríanderfræ
 • 1 tsk Maldon-salt

Blandið öllu saman í fati. Skerið kjúklingin í sundur á bringubeininu og fletjið í sundur. Nuddið kjúklingnum vel upp úr kryddblöndunni. Látið liggja í 1-2 klukkustundir.

Grillið með opnu hliðina niður fyrst, fyrst á beinum hita en síðan á óbeinum hita og undir loki. Snúið við eftir um 20 mínútur og eldið þar til að kjúklingurinn er fulleldaður, kannski 15 mínútur í viðbót. (Allt fer þetta eftir m.a. hitanum á grillinu og stærð kjúklingsins).

Jógúrtsósa

 • 1 dós grísk jógúrt
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • væn skvetta af ólívuolíu
 • 2 pressaðir hvítlauksgeirar
 • 1/2 lúka fínsaxaður kóríander
 • 1/2 lúka fínsöxuð myntublöð
 • 1 tsk Maldon salt
 • 1 tsk cummin

Blandið öllu saman og geymið í kæli.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann borinn fram ásamt basmati-hrísgrjónum, jógúrtsósunni og grænu salati. Til að hafa þetta alveg ekta mætti svo grilla pítabrauð með.

Með þessu hentar vel hvítvín á borð við Montes Alpha Chardonnay.

 

 

Deila.