Absolut ABBA á Kolabrautinni

Það eru 40 ár liðin frá því að sænska hljómsveitin ABBA sló í gegn og nú um helgina eru tvennir tónleikar í Hörpu þar sem nokkrar af vinsælustu söngkonum landsins munu syngja mörg af vinsælustu lögum sveitarinnar. ABBA verður einnig í aðalhlutverki víðar í húsinu því á barnum á Kolabrautinni verður boðið upp á sérstakan ABBA-drykkjarseðil undir heitinu Absolut ABBA.

Andri D. Pétursson sem er yfir kokteilbar Kolabrautarinnar segir stefnuna vera þá að vera í auknum mæli með einhvers konar þemu sem tengjast því sem er í gangi annars staðar í húsinu. Það hafi einhvern veginn legið svo beint við að tengja „svíana“ Absolut og ABBA. Þarna eru þó líka íslensk áhrif. Andri á ættir að rekja til Norðurlands og þaðan kom hann með mikið af rabarbara á dögunum sem hann sauð í 14 lítra af rabarbarasírópi. Þá notar hann aðalbláberin frá tengda-ömmu Möggu fyrir norðan í síróp og skreytingar.

ABBA-drykkirnir sem hann setti saman eru fjórir og heita þrír þeirra í höfuðið á þekktustu lögum sveitarinnar, Mamma Mia!, Super Trouper og The winner takes it all. Sá fjórði er auðvitað svona nafn sem ekki var hægt að láta ónotað – rabarbaradrykkur í ABBA-þema gat auðvitað ekki heitið annað en Abba-bara.

Andri var áður yfirþjónn á Sjávargrillinu og hefur líka starfað á Dill og Vox auk þess að vera skólastjóri Barskólans. Andri er hér  til vinstri á myndinni ásamt Johnny, áströlskum kollega sínum á Kolabrautarbarnum.

 

Deila.