Nauta Fajitas

Fajita er hugtak  úr mexíkóska og tex-mex eldhúsinu sem nær yfir kjötrétti sem eru grillaðir eða pönnueldaðir og bornir fram með tortilla-pönnukökum. Kjötið er marinerað í lime sem mýkir það og gefur því hinn nauðsynlega keim. Það á alls ekki að nota bestu vöðvana. Mínútusteik er til dæmis tilvalin í þennan rétt. Svo er nauðsynlegt að hafa sterkkryddaða alvöru salsasósu með.

Kryddlögur

  • safi úr 1 lime
  • 3-4 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 1 tsk chili
  • 1/2 chiliflögur
  • 1 tsk cummin
  • 2 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið nautakjötið í frekar þunnar sneiðar. Blandið öllu sem á að fara í kryddlöginn saman og hellið í ziploc-poka ásamt kjötinu. (Auðvitað er líka hægt að hafa þetta í skál). Látið marinerast í að minnsta kosti 3-4 klukkustundir eða jafnvel yfir nótt í ísskáp.

Aðferð

  • 2 paprikur (gjarnan mislitar)
  • 2 laukar
  • kóríander

Hellið marineringunni frá. Skerið lauk og paprikur í sneiðar. Hitið olíu á pönnu. Byrjið á því að svissa kjötið en bætið svo lauk og papriku saman við. Steikið í 4-5 minútur.Saxið kóríander og stráið yfir.

Berið fram með heimatilbúnu salsa og guacamole, sýrðum rjóma og tortillapönnukökum.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.

Deila.