Torres Ibéricos 2009

Ef nefna ætti einn einstakling sem að hefur lagt mest af mörkum til að breyta og bæta ásjónu og ímynd spænskra vína síðustu hálfa öldina kæmi líklega enginn annar til greina en Miguel Torres. Hann er fyrir löngu búinn að hasla sér völl utan heimaslóðanna í Pénedes suður af Barcelona og framleiðir nú vín jafnt í flestum þekktustu víngerðarsvæðum Spánar sem víða um heim.

Ibéricos er Rioja-vín Torres og líkt og annað sem frá honum kemur er það óaðfinnanlegt. Vínið kom fyrst á markað 2009 og 2009 er fjórði árgangurinn sem vínhús Torres í Rioja Alavesa sendir frá sér.

Þetta er nútímalegt og kröftugt Rioja-vín. Það fyrsta sem tekur á móti manni er þung og mikil angan af ristaðri eik, kaffi og súkkulaðitónar. Undir niðri dökkur og þroskaður ávextur, plómur og dökk ber, sultuð krækiber. Feitt og þykkt í munni með kryddaðri eik og djúpum ávexti, mjúk og þétt tannín, vanilla. Flott og vel gert.

2.459 krónur. Góð kaup.

Deila.