Trivento Golden Reserve Syrah 2008

Golden Reserve-línan frá Trivento er hrikalega vel heppnuð. Um nokkurt skeið hafa Malbec og Chardonnay-vín úr þessari línu verið fáanleg en nú hefur vín úr þrúgunni Syrah einnig bæst við. Líkt og hin tvö er þetta vín sem nær að endurspegla einstaklega vel bæði einkenni þrúgunnar sem svæðisins, kraftmikið, nútímalegt, heillandi.

Dökkt, í fyrstu angan af ristuðu kaffi, vanillu og núggatsúkulaði, sætur, djúpur, dökkur berjaávöxtur, sultuð kirsuber, sólber. Eikin áberandi, krydduð og ristuð. Vínið er töluvert umleikis, þetta er stórt og kröftugt vín, engu að síður mjúkt með þægilegum tannínum. Gefið víninu helst nokkrar klukkustundir til að opna sig. Flaskan sem að við prufuðum var enn að opna sig og sýna á sér nýja mynd sólarhring eftir að hún var opnuð. Með lambi, nauti og villibráð.

2.999 krónur. Frábær kaup á þessu verði.

Deila.