Tour de Pibran 2008

Bestu vínhúsin í Bordeaux framleiða flest fleira en eitt vín. Í fyrsta lagi sjálft „Chateau“-vínið en einnig „sécond“-vín þar sem notaðar eru þrúgur af yngri vínvið og stundum umframvín sem nær ekki að fara í stóra vínið. Oft eru þetta með bestu kaupunum, sem hægt er að gera í Bordeaux. Það á við hér en Tour de Pibran er annað vín Chateau Pibran, Cru Bourgeois í Pauillac sem hefur fest sig í sessi sem „ódýr“ valkostur við stóru nöfnin er umlykja vínhúsið allt í kring. Þrúgurnar koma af 30 ára vínvið og eru Cabernet Sauvignon og Merlot nokkurn veginn til helminga en Pibran-stíllinn er oft þyngri í Merlot en hjá nágrönnunum.

Tour Pibran 2008 er fullorðins Pauillac, tignarlegt og aristókratískt. Dökkur sólberjaávöxtur, vindlakassi, reykur og ristaðar kaffibaunir. Höfugt og tannískt með löngum keim. Umhellið með 1-2 klukkustunda fyrirvara. Reynið þetta vín t.d. með Nautalund Wellington.

4.699 krónur. Góð kaup.

Deila.