Cono Sur Gewurztraminer 2012

Gewurztraminer er merkileg þrúga, ekki alveg hvít, hún daðrar við rauða litinn þegar að hún nær fullum þroska en þó ekki þann blá sem að einkennir rauðvínsþrúgur. Hún er kraftmikil og arómatísk og nær hæstu hæðum í Alsace í norðausturhluta Frakklands. Vissulega er Gewurztraminer ekki allra, sumum þykir hún yfirþyrmandi, aðrir elska hana, dýrka og dá. Hér er eintak frá Chile sem að engum getur verið illa við, jafnvel hörðustu efasemdarmenn um Gewurztraminer ættu að reyna þessa útgáfu.

Hreinn, bjartur og kröftugur ávaxta- og blómailmur. Þarna eru þroskaðar apríkósur, lychéávöxtur og sítrus, ekki síst greip. Þurrt og brakandi ferskt í munni með arómatískum og þéttum ávexti. Yndislegt vín. Reynið sem fordrykk eða með asískt krydduðum mat, t.d. asískri kjúklingasúpu.

Verð 1.895 krónur. Frábær kaup.

Deila.