Blanc de Pacs 2012

Pares-Balta, vínhús Cusine-fjölskyldunnar, er að finna í þorpinu Pacs í Pénedes, suður af Barcelona. Það eru þó eiginlega ýkjur að kalla Pacs þorp, þetta er hreinræktað dreifbýli, ekrur og vínhús. Það sem einkennir víngerð Pares Balta er mikill metnaður og einlægni. Vínin eru vönduð og náttúruleg en jafnframt hika hinir ungu fulltrúar fjölskyldunnar sem nú fara fyrir vínhúsinu ekki við að brydda upp á nýjungum.

Pares Balta er þekkt fyrir freyðandi Cava-vínin sín en hvítvínið Blanc de Pacs styðst við sömu þrúgublöndu og  mörg Cava, katalónsku þrúgurnar Parellada, Macabeo og Xarello. Angan af sætum perum og grænum eplum í bland við blómaengi og limebörk. Í munni ferskt, arómatískt og míneralískt með unaðslegri mildri sýru sem lyftir víninu upp. Flott sem fordrykkur, með skelfisk eða sushi.

2.099 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.