Hamborgari með papriku- og chilisósu

Það er ekki bara hamborgarinn sjálfur sem skiptir máli heldur allt í kringum hann. Þessi hamborgarasósa einkennist af blöndu af papriku og chili og við bættum síðan líka smá reyktri papriku í sjálfan borgarann. Það er síðan auðvitað lykilatriði að hafa alvöru heimabökuð hamborgarabrauð með.

Hamborgararnir

  • 600 g gott nautahakk
  • 1 msk reykt paprika (smoked paprika)
  • salt og pipar

Blandið saman og mótið í fjóra 150 gramma borgara.

Papriku og chili-sósa

  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • 1 rauð paprika, skorin fínt í litla teninga
  • 1 dl Heinz Chli Sauce
  • 3 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 1 tsk reykt paprika
  • 1/4-1/2 tsk Tabasco
  • salt og pipar

Blandið öllu saman í skál. Þið ráðið hvað þið setjið mikið af Tabasco út í en það þarf meira en einn dropa.

Bakið hamborgarabrauðin. 

Grillið borgarana. Þegar þeim er snúið við er tilvalið að skella smá osti ofan á.

Skerið brauðin í tvennt. Setjið rauðlauk , tómata og salatblöð á brauðbotninn. Það er líka gott að smyrja hann með smá Dijon-sinnepi. Þá kemur borgarinn og síðan vænn skammtur af papriku-chili-sósunni.

Við mælum með góðu nýja-heimsrauðvíni með þessum borgara. T.d. góðu Cabernet Sauvignon  og Malbec-víni frá Chile á borð við Montes Twins.

Fullt af góðum hamborgarauppskriftum í viðbót má svo finna hér.

 

 

 

Deila.