Guðrún Jenný bloggar: Ungverskt sveitabrauð

Fyrir um það bil fjórum árum ákvað ég að hætta að kaupa brauð og kruðerí úr bakaríum og stórmörkuðum og baka þetta sjálf.  Að hluta til var um sparnaðaráðstöfun að ræða og að hluta til þá vildi ég vita nákvæmlega hvað við værum að láta ofan í okkur.  Mér blöskraði eitt sinn þegar ég las innihaldslýsinguna á „grófu“ brauði úr stórmarkaði.  Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun.

Margir halda því fram að brauðbakstur sé svo tímafrekur en ég er á annarri skoðun.  Það tekur enga stund að hnoða saman, hveiti, vatni og geri – á meðan deigið er að hefast átt þú frjálsan tíma.  Svo er hægt að leika sér endalaust, nota mismunandi mjöl, gróft eða fín, korn og fræ, hnetur og ávexti, krydd og  o.fl.  o.fl.

Yfirleitt nota ég sunnudaga til að baka og baka þá oft mikið og set í frysti til að eiga fyrir vikuna.   Hér er uppskrift úr sænsku blaði sem vinnufélagi minn gaf mér.  Hún er nokkuð stór – þið fáið þrjú væn brauð úr einni uppskrift.

  • 2 pokar þurrger (ca 23 g) eða 100 g ferskt ger
  • 10 dl vatn
  • 1 ½ msk salt
  • ½ msk kúmen (ef þið viljið)
  • 5 dl rúgmjöl
  • ca 18 dl hveiti

Byrjið á því að setja gerið í stóra skál og blandið volgu vatni við.  Þegar gerið er uppleyst bætið salti (og kúmeni ef þið notið það) við gerblönduna.  Blandið öllu rúgmjölinu og um það bil 16-17 dl af hveiti við gerblönduna.  Hnoðið deigið vel og bætið hveiti við ef þarf.  Deigið á að vera vel viðráðanlegt en þó ekki of þurrt.  Deigið er sett í stóru skálina og látið hefast í 90 mín.

ungverskt sveitabrauð

Eftir hefun þá þarf að skipta deiginu í þrennt og forma alla þrjá hlutina í aflöng brauð.  Deigin eru nú sett á smurða bökunarplötu og smyrjið hliðarnar á brauðunum vel með bræddu smjöri þannig að auðvelt verði að ná þeim í sundur að bakstri loknum.

Nú er gott að byrja að hita ofninn í 200°C.  Breiðið yfir deigið og látið það hefast aftur í 30 mín.  Að seinni hefun lokinni skerið þá í brauðið með beittum hníf og bakið í ca 40-45 mín.

Deila.