Spánn sýnir spilin á Fenavin

Það er fróðlegt að sjá þann mikla kraft sem einkennir spænska víngerð nú um stundir en vínsýningin Fenavin í CIudad Real var kjörið tækifæri til þess. Spænsku vínin hafa verið í mikilli sókn og alltaf koma upp og ný svæði sem vekja athygli – eða gömul svæði sem allt í einu eru orðin athyglisverð.

Toro er til dæmis eitt þeirra svæða sem hvað mest er talað um í dag, lítið svæði  á hásléttunni í norðvesturhluta Castilla y Leon, ekki svo langt frá Ribera. Þetta verður seint kallað ungt svæði, þarna hafa verið gerð vín frá því á fyrstu öld og meginþrúgan er Tinta di Toro – öðru nafni Tempranillo. En loftslagið er öfgakennt meginlandsloftslag, með miklum hitasveiflum milli árstíða og innan sólarhringsins. Þetta hefur heillað marga vínræktendur sem þarna geta gert kröftug og mikil rauðvín sem þurfa ekki að kosta mikið. Það var því áhugavert að koma við á Toro-básnum.

En það er ekki bara Toro sem er að gera það gott – stundum verður maður að taka ofan fyrir þeim gæðum sem eru í boði miðað við verð Það var til dæmis virkilega athyglisvert að smakka nýja línu frá vínhúsinu Grandes Vinos y Vinedos í Carinena á Spáni. Fyrir tveimur árum eða svo komu á markaðinn vínin Beso de Vino frá þeim og nú gafst kostur á að smakka nýju línuna Circo. Ódýr vín – en þvílíkur ávöxtur. Djúpur og safaríkur, hreinasti unaður.

Stóru vínhúsin eru flest hver með áþekkar línur. Ung vín (Joven), síðan Crianza-vín og svo Reserva og jafnvel Gran Reserva þar sem eikaráhrifin verða meiri. Oftar en ekki eru það yngri vínin sem eru bestu kaupin (verð/gæði) og aftur og aftur sér maður hvað miðhluti Spánar hefur tekið sig á í gæðum. Vín frá svæðum á borð við Valdepenas. Það nafn var lengi vel talin ávísun á leiðindasull en nú eru þetta oftar en ekki afskaplega vel gerð og vönduð vín – kannski ekki alltaf spennandi en til að keppa við ódýru Nýjaheimsvínin eru fáir kostir betri.

Og svo eru það þeir sem eru að gera öðruvísi, sérstaka og stórkostlega hluti…

Spænskur framleiðandi sem lengi hefur verið í miklu dálæti er Pares Balta vínhús Cusine-fjölskyldunnar í Pénedes suður af Barcelona. Joan Cusine er sannkallaður Íslandsvinur og honum er það mikið metnaðarmál að vínin hans skuli fást á Íslandi. Og ekki skulum við kvarta yfir því. Pares Balta er með betri vínhúsum Katalóníu, allt sem að þau gera er lífrænt og á síðustu árum hafa þau verið að færa út kvíarnar til Ribera del Duero og Priorat.

Það er einungis um hálft ár frá því að við smökkuðum síðast saman en Joan lumar alltaf á einhverju nýju og spennandi. Að þessu sinni magnað nýtt freyðivín – eða cava – sem ber heitið Rosa Cusine – gert úr rauðu Grenache-þrúgunni sem hefur verið leyft að „blæða“ örlítið til að gefa vott af lit.

Þá smökkum við Camino Romano 2011 frá Ribera, fyrsti árgangurinn sem er með lífræna vottun og Gratavinum Silvestus, fyrsta Priorat-vínið sem er ekki með neinum súlfati. „Maður þarf að vera enn passasamari við víngerðina þegar súlfat er ekki notað og vínið hefur ekki sama geymsluþol og hin hefðbundnu.“  Það verður hins vegar ekki sagt um Gratavinum del Costers 2007. Einungis eru notaðar þrúgur af rúmlega aldargömlum vínvið og heildarmagnið er rétt um ein og hálf tunna. Dökkt, öflugt og mikið vín sem hæglega getur lifað í einhverja áratugi.

Að þessu búnu voru síðan nokkrir framleiðendur frá Ribera del Duero smökkuð, meðal annars sem liður í undirbúningi heimsóknar þangað. En meira um það síðar. Það er margt að gerast í Ribera.

Meira um sýninguna má svo lesa hér.

Deila.