Guðrún Jenný bloggar. Þorskur með indversku ívafi

Við í fjölskyldunni reynum að borða fisk tvisvar til þrisvar í viku og það verður að segjast eins og er að ég er ekki alveg nógu dugleg að prófa nýjar uppskriftir þegar það kemur að því að elda fiskinn.  Oftast endar þetta í hefðbundnum steiktum fisk með lauk og tilheyrandi, plokkfisk eða bara það einfaldasta; soðinn með kartöflum og soðnum gulrótum.

Ég er óð í indverskan mat en elda hann ekki oft.  Langur hráefnalisti sem oft er fylgifiskur indverskra uppskrifta hræðir mig og ég endist oft ekki til að lesa þannig uppskriftir – en bragðið maður minn!  Núna ákvað ég aftur á móti að láta slag standa og elda fisk með indversku ívafi.

Þessi sveik ekki – passlega sterk sósan passað mjög vel með þorskinum.  Ég hvet ykkur til að prófa þetta er einfaldara en innihaldslýsing gefur til kynna:

 • 500-800 þorskur eða ýsa í bitum
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 2 laukar
 • ca 3 cm af fersku engifer
 • 50 ml hvítvínsedik

Byrjið á því að setja hvítlauk, lauk, engifer og edik í matvinnsluvél og látið ganga þar til allt hefur maukast saman.  Smyrjið tæplega helmingnum af maukinu á fiskinn og látið bíða í ca 30 mín.  Geymið restina af maukinu fyrir sósuna

Sósan:

 • 4 msk olía (ekki ólífuolía)
 • 1 tsk sinnsepsfræ
 • 1 laukur smátt saxaður
 • 4 negulnaglar
 • 4 heil svört piparkorn
 • 2 lárviðarlauf
 • 1 heil kardimomma
 • Hálf kanilstöng
 • 1 tsk cummin (malað)
 • 1 tsk turmeric (malað)
 • ½ – 1 tsk chili duft (eftir smekk)
 • Salt (eftir smekk)
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 150 ml hrein jógúrt
 • 1 msk sykur
 • 200 ml vatn

 

Hitið olíuna í nokkuð djúpri pönnu með þykkum botni.  Þegar olían er heit skellið sinnepfræunum út í steikið þá þar til þau byrja að „poppast“.  Setjið þá laukinn út í ásamt negulnöglum, pipar, lárviðarlaufum, kardimommu og kanilstöng.  Steikið þar til laukurinn hefur tekið lit.  Setjið þá restina af laukmaukinu sem við marineruðum fiskinn í (ég skef það mesta af fiskinum á þessu stigi og bæti út í pönnuna) og steikið vel.  Hrærið þá cummin, turmeric, chili og salti við.  Tómötum bætt í og allt látið malla saman þar til mesti vökvinn hefur gufað upp.  Bætið þá við jógúrt og sykri og aftur er allt látið malla þar til olía byrjar að sjást á yfirborði sósunnar.  Þá er vatni bætt við og fiskurinn settur út í.  Lok sett á pönnuna og allt látið hitna vel þar til að fiskurinn er tilbúinn.    Ferskum kóríander stráð yfir þegar þið setjið herlegheitin á borðið.

Borið fram með soðnum hrísgrjónum (prófið að setja negulnagla, kanilstöng, kardimommu og cummin með í vatnið sem þið sjóðið grjónin í), jógúrtsósu (hrein jógúrt, salt og pipar, cummin og ferkar kryddjurtir s.s. basilíka, kóríander og/eða mynta).

Deila.