Þetta er að grunni til klassísk amerísk eplabaka með stökku bökudeigi bæði í botni og ofan á eplunum. Það sem vakti fyrst athygli mína á þessari uppskrift er hvernig safinn úr eplunum er notaður til að búa til karamellu enda veit ég fáar samsetningar betri en epli og karamella.
Bökudeigið
- 350 grömm hveiti
- 1 tsk salt
- 30 grömm sykur
- 225 grömm smjör (kalt og skorið í bita)
- 60-120 ml ískalt vatn
Setjið hveitið, saltið og sykurinn í matvinnsuvél og blandið vel saman. Setjið síðan smjörið út í og hrærið þangað til að deigið hefur safnast saman í stóra kúlu, það tekur ekki margar sekúndur. Bætið þá ísköldu vatni hægt út í eða þangað til að deigið rétt nær að halda sér sama. Skiptið þá deiginu í tvennt og fletjið út þannig að deigið rúmis í bökuforminu . Setjið plastfilmu yfir báða deighlutana, geymið í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund.
Eplafylling
- 6 epli, græn Granny Smith
- 50 grömm sykur
- 55 grömm púðursykur
- 1 msk sítrónusafi
- 1/4 tsk múskat
- 1/4 tsk salt
- 25 grömm ósaltað smjör
- 15 grömm kartöflumjöl
Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið i bita. Blandið saman eplum, sykri, sítrónusafa, kanil, múskat og salti í skál og látið standa í um hálftíma. Setjið þá eplin í sigti og leyfið vökvanum að leka af þeim ofan í skál. Þetta getur tekið um hálftíma en að því búnu ætti að vera rúmur dl af vökva í skálinni (það þarf um 120 ml). Hitið smjörið á pönnu ásamt safanum sem lak af eplunum og leyfið að krauma á miðlungshita þar til að þetta fer að karamelliserast, breytast í síróp.
Blandið eplunum saman við kartöflumjölið. Hellið síðan karamellunni/sírópinu yfir eplin.
Takið annan hlutann af bökudeiginu úr ísskáp og setjið í form. Dreifið eplunum yfir. Setjið síðan hinn hlutann af deiginu yfir. Það getur veirð ágætt að væta brúnirnar á deiginu aðeins áður en það er sett á til að það loði betur við. Skerið nokkur strik, um 5 sm löng, í deigið en það leyfir gufu að komast úr fyllingunni.
Bakið við 220 gráður neðarlega í ofni í allt að 55 mínútur. Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.
Fleiri eplakökur sjáið þið með því að smella hér.
Svo hvetjum við ykkur til að kíkja á afmælisleik Vínóteksins. Smellið hér!





