Arndís Ósk bloggar: Grillað eggaldin með tómatasósu og geitaosti

Ég er enn í forréttagír og vil deila þessum elegant forrétt með ykkur.  Ég er í æsispennandi matarklúbb með miklum matgæðingum, við hittumst óreglulega en þegar við hittumst þá erum við að öllu jöfnu með eitthvað land eða menningu sem matarþema.  Röðin var komin að mér og ég var í tímapressu eins og venjulega og við vorum búnar með líbanskt, indverskt og thai þannig að ég ákvað að elda ítalskt ofan í dömurnar.  Ein í klúbbnum kom með ómótstæðilegan og einfaldan forrétt sem ég endurtók um daginn þegar ég bauð einhverju góðu fólki í heimapizzur.  Eins og flestur ítalskur matur, þá er þessi réttur einfaldur og leggur upp með fá en fersk hráefni.

Þessi uppskrif er fyrir 6 (með smá eggaldin í afgang sem hægt er að nýta í salat daginn eftir eða bara til að gúffa því í sig köldu beint úr Tupperwareboxinu þar sem ég stend við ísskápinn Nigella-style en ekki jafnvel tilhöfð).

  • 2 eggaldin, skorin í sneiðar langsum sem penslaðar eru með ólífuolíu
  • 1/2 laukur saxaður
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 dós geitasmurostur – því sterkari, því betri.  Þar sem slíkur fékkst ekki í Hagkaup þegar mér hentaði, þá endaði ég á að kaupa geitaost í sneiðum til að redda mér. Það var ekki alveg jafngott og með hinum ostinum.  Þið sjáið það líka á myndinni að ég setti hann á milli sósunnar og eggaldinsins í stað þess að setja hann efst þar sem hann var ekki svo fagur.
  • góð ólífuolía
  • ferskur basil, bara svona lítil lúka
  • salt og pipar eftir smekk

Ég hef lesið mikið af lærðum greinum sem ekki eru á sama máli um gildi þess að salta og pressa safann úr eggaldin fyrir eldun.  Vilja sumir meina að þetta sé gamaldags og eigi ekki við eggaldin nútímans en aðrir vilja meina að þetta taki remmuna úr, sel ég það ekki dýrara en ég keypti það.  En vegna þessa asa og paniks sem oftast skapast í mínu eldhúsi, þar sem að mig vantar hráefni og/eða tíma, þá stend ég ekki í slíku og mínir eggaldinsréttir eru bara mjög góðir þannig að ég hallast að því að þetta sé tímasóun.  Ég byrja á því að fíra upp í gamaldags samlokugrilli eða mínútugrilli, má samt ekki vera klemmugrill, ef þið eigið ekki slíkt (hí á ykkur!) en þá má nota vel heita pönnu og helst á hún að vera riffluð.  Ég byrja bara á að raða þessu í grillið og þetta er tilbúið þegar fallegar dökkar rendur eru komnar í aldinið – þetta hljómar meira mál en þetta er.  Þetta tekur ca. 3-4 mínútur í grillinu og ég set þetta svo í volgan ofn til halda þessu heitu á meðan ég er að grilla restina.

Svo svissa ég lauk á lágum hita í ólífuolíu og leyfi honum að gulna og malla í ca. 10 mínútur (laukurinn á ekki að brúnast), þá bæti ég hvítlauk við.  Þegar hann er aðeins farinn að taka á sig lit, þá set ég tómatana út í, leyfi suðu að koma upp og lækka svo hitann.  Ég hef þann ávana að skola tómatdósirnar mínar til hálfs með vatni sem ég svo gusa yfir hvaða rétt sem ég er að elda (vestfirska nýtnin sjálfsagt).  Ég leyfi þessu svo bara að malla á meðan ég klára að grilla eggaldinið, en leyfið þessu að malla í a.m.k. 10 mínútur.  Ég bæti svo basil við þegar ég er tilbúin til að bera réttinn fram.

Þegar mér svo hentar að bjóða upp á mat, þá tek ég hliðardiska og set rúmlega sleif af sósu neðst og svo set ég ca. 2 sneiðar af grilluðum eggaldin ofan á og efst er gott að setja væna teskeið af geitaosti og skreyta með smá basil efst og hristi smá ólífuolíu yfir.  Gott er að bera fram með smá brauði til hliðar

Það góða við þennan rétt, fyrir utan það að hann er hollur og ferskur, að hann er mjög elegant og gestir fá það á tilfinninguna að maður hafi með blóði, svita og tárum töfrað þetta fram.  Allir vinna!

Deila.