Arndís Ósk bloggar: Gómsætt og sykurlaust granóla til að horast!

Ég á rúmlega 20 ára gamla næringarfræði- og matreiðslubók sem hefur elst ótrúlega vel.  Kannski er það vegna þess að myndir eru af skornum skammti og uppskriftir eru nokkuð klassískar, en hún er með sitt lítið af hverju úr matreiðslu heimsins.  Þessi bók er eftir Jane Brody og hún agiterar fyrir því að við borðum meira af kolvetnum til að bæta heilsu og til að grennast!  Jennifer Anniston hefur líklegast ekki lesið þessa bók og þið getið nú séð árangurinn af því.  Þessi bók hefur orðið til þess að ég nota fleiri korntegundir í matargerð og bakstur og er óhræddari við að skipa út hráefnum.  Einnig nota ég miklu meira af alls konar baunum, sem ég útvatna og sýð í stórum stíl til að eiga í frysti.

Ég hef eldað og bakað ýmislegt upp úr henni, oftast er ég að gera amerískar pönnukökur sem eru úr 3 korntegundum.  Þessi bók hefur líka haft þau áhrif á mig að bragðskyn mitt á amerískar pönnukökur hefur breyst fyrir lífstíð. Þegar ég fæ slíkar sem eru bara gerðar úr hvítu hveiti, þá finnst mér þær límast í góminn á mér og hef daglangar áhyggjur af áhrifum þess á þarmana á mér.  Einnig hefur þessi bók granóla uppskriftina sem ég nota sem grunn þegar ég geri mitt eigið. Það endar svo alltaf með því að ég byrja að henda flestu sem er til í skápum í blönduna en eina reglan sem ég held alltaf í heiðri er að nota aldrei rúsínur.  Deili með ykkur síðustu uppskrift.

 • 1/4 bolli góð grænmetisolía – best er að nota lífræna þannig að þið séuð ekki að borða eitthvað drasl
 • 1/4 bolli hunang (má sleppa og má hafa meira af)
 • 1/2 bolli vatn
 • 3 bollar gróft haframjöl
 • 1 bolli kókosmjöl – fínt eða gróft
 • 1 bolli sólblómafræ
 • 1/2 bolli sesamfræ
 • 1 og 1/2 teskeið kanill
 • 1/2 teskeið þurrkað engifer
 • 1/2 bolli hveitikím (wheat germ)
 • 150 grömm af þurrkuðum ávöxtum, saxað (ég er hrifnust af því að nota apríkósur og trönuber)

Venjulega geri ég svona uppskrift þrefalda, það veitir ekkert af því.  Best er að blanda olíu, hunangi og vatni saman og hita í stórri ofnskúffu eða eldföstu móti.  Þegar þetta er orðið heitt og dreifst vel úr, bætið þá öllu öðru við nema hveitkími og þurrkuðum ávöxtum og hrærið vel í.  Bakið í ca. 20-30 mínútur. Ég vil baka mitt granóla nokkuð vel, þannig að maður endi ekki með lint og grátt haframjöl með fullt af allskonar.  Það sem þarf að passa vel er að vakta ofninn og hræra í blöndunni á ca. 5-8 mín. fresti.  Þegar þetta fer að taka sig, þá getur blandan brúnast og jafnvel brunnið nokkuð fljótt.  Þegar þetta er orðið aðeins brúnt, má bæta hveitikími við og baka í ca. 5 mínútur í viðbót.  Takið út, leyfið að kólna og bætið svo þurrkuðum ávöxtum við.

Þessi uppskrift er með hunangi, en stundum hef ég ekki átt það eða finn það þegar allt er komið inn í ofn og er næstum tilbúið.  Verð að segja það að ég get ekki fundið nokkurn mun á bragði en það er kannski vegna þess að í uppskriftinni er kókosmjöl en það er talsvert sætt.  Íslendingar sem eru sykurháðir, geta bætt við þegar þeir fá sér smá agave sírópi eða hunangi.

granola

Það er hægt að gera þetta mjög djúsí og borða þetta með grískri jógúrt og ferskum berjum.  Dags daglega borða ég þetta með ab-mjólk og er of nísk til að nota fersk ber.  Ég er því oftast með frosin hindber eða jarðaber, sem ég passa mig nú á að sjóða vel í a.m.k. 1 mínútu og kæla eftir til að forðast lifrabólgu samkvæmt ráðleggingum Matvælastofnunar.

Deila.