Haukur Leifsson bloggar: Steðji sóttur heim

Á bænum Steðja í Flókadal í Borgarfirði er starfrækt lítið brugghús. Bæjarstæðið er afar fagurt og gríðarlegt útsýni frá brugghúsinu. Á sólríkum laugardegi í lok júní tók Dagbjartur Ingvar Arilíusson á móti mér og sýndi mér brugghúsið og fræddi mig um framleiðsluna.

Steðji sérhæfir sig í þýskum bjórum undir handleiðslu Philipp Ewers. Philipp er fyrrverandi bruggari Mjaðar í Stykkishólmi og vann lengi í heimalandi sínu hjá Schumacher í Dusseldorf, en það brugghús er afar frægt fyrir Altbier bjórana sína. Tenging Steðja við Mjöð er ekki bara bruggmeistarinn heldur var allur búnaður keyptur af Mjöði þegar brugghúsið lokaði. Dagbjartur var einn af þeim sem tóku niður allan búnað í Stykkishólmi og sagði hann að það hafi skipt sköpum við að koma brugghúsinu af stað á nýjum stað, hann þekkti nánast hverja einustu skrúfu og með hjálp sveitunga sinna var brugghúsinu komið fyrir í vélasmiðju á bænum Steðja.
Steðji bruggar látlausa bjóra, pilsner og lager bjóra sem eiga ættir að rekja til Norðurrín-Vestfalíu í Þýskalandi. Lagerbjór þeirra er auðveldur bjór og ætlaður fyrir hinn almenna bjórdrykkjumann eins og Dagbjartur orðar það, og fínn valkostur fyrir fólk sem vilja drekka kannski nokkra lagerbjóra á góðu helgarkvöldi.
Dagbjartur gaf mér að smakka nokkra bjóra beint úr tönkunum. Fyrstur á dagskrá var Steðji Jarðarberja bjór, léttur lagerbjór með viðbættum jarðarberjum. Áreynslulaus sumarbjór ætlaður sem samkeppni við áfenga gosdrykki sem vinsælir eru á sumrin hjá landanum. Næstur var Steðji dökkur, áhugaverður bjór bruggaður í Altbier stíl, stíl sem bruggmeistari þeirra sérhæfir sig í. Beint af tanki smakkaðist hann ágætlega, keimur af grösugum evrópskum humlum með góðum maltkeim. Að mati undirritaðs fylgir hann Altibier stílnum vel og er hinn ágætasti boðberi hans hér á landi.
Nýjasti bjór Steðja og það sem eflaust mætti segja að væri stolt brugghússins er Steðji Reyktur sem er þýskur Rauchbier. Bjórinn er lagerbjór en maltið í honum er reykt sem gefur honum góðan keim af reyk og jafnvel kjöti. Beint af tanki var hann með mikla og þykka froðu og fallegan dökkbrúnan lit. Reykurinn er ef til vill aðeins of látlaus sem gerir það að verkum að hann virkar meira eins og viðbót við bragðið. Hann ætti því að henta vel fyrir þá sem vilja halda sig við lager og pilsner bjóra en smakka örlítið öðruvísi bjór. Steðji fær hrós fyrir að vera fyrsta brugghúsið hér á landi fyrir að setja á markað „Rauchbier“ en fram að þessu hafði Ölvisholt verið eina íslenska brugghúsins sem bruggað hefur bjór með reyktu malti, en þeir notast við reykt malt í Lava.
Deila.